Ásdís Rán Gunnarsdóttir er stödd á landinu og lét sig ekki vanta á opnun myndlistarsýningar Gotta Bernhöft myndlistarmanns og hönnuðar sem opnuð var í Gallerí Bakaríi á fimmtudaginn.
Verkin á sýningunni eru unnin með fjölbreyttri tækni. Á sýningunni eru annarsvegar „portrett“ teikningar unnar með bleki og úðabrúsalakki og hinsvegar stórar myndir unnar með blýanti, bleki, úðabrúsalakki, tússi og olíulitum.
Gotti hóf sinn listamannaferil sem „graffity“ listamaður, gjarnan á harðahlaupum undan löngum armi laganna, en líka sem myndasöguteiknari. Bakgrunnur Gotta endurspeglast í verkum hans en segja má að hvert verkanna á sýningunni segi litla sögu.
Gotti útskrifaðist með B.A. í „Visual Communication“ frá „The American College for the Applied Arts, Los Angeles“. Gotti hefur starfað sem grafískur hönnuður, við tölvugrafík, tölvugrafíkmyndagerð, hannað verslanir, veitingastaði, skó, auglýsingarvörur og gjafavörur. Sýningin stendur yfir til 11. nóvember.