Ásdís Rán Gunnarsdóttir lét ljósu lokkana fjúka og skartar nú mun styttra hári. Hún er að vinna með klassískara útlit þessa dagana.
„Það er bara komin tími til að breyta smá til og leyfa bombu-lokkunum að víkja fyrir klassískara lúkki þar sem ég er langt komin í að leggja fyrirsætu skóna á hilluna og byrjuð að einbeita mér að öðrum málum. Ég á yfir 30 forsíður, þúsundir mynda og sjónvarpsþætti að baki sem birst hafa víðsvegar um Evrópu þannig að ég er bara sátt með minn feril á þessu sviði svona samhliða móðurhlutverkinu. Ég er að sjálfsögðu ekki alveg hætt en já ég er að fara aðeins út í klassískari ímynd með breyttum áherslum,“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir.
Hún fékk Kristínu Stefánsdóttur förðunarmeistara og höfundar bókarinnar, Förðun skref fyrir skref, til liðs við sig.
„Kristín Sefáns förðunarfræðingur tók að sér að breyta mér í stíl við verkefnið en hún hefur margoft málað mig í gegnum tíðina. Hún hefur verið að vinna meira með Bombu-fílinginn fyrir myndatökur og fannst æðislegt að spreyta sig á þessu nýja útliti mínu. Lucy á Hairdoo sá svo um klippinguna og Jón Páll ljósmyndari smellti nokkrum myndum í lokin. Þetta verður allt mun auðveldara núna þar sem ég hef farið síðustu árin 1-2 í viku á hárgreiðslustofu að gera lagninguna mína! Stelpurnar á Hairdoo í Kópavogi hafa verið að sjá um mig en það var hún Lucy sem skellti sér í þetta verkefni að finna réttu klippinguna fyrir mig og það tókst bara mjög vel til eða ég alla vegna er ekki ennþá byrjuð að sjá eftir þessu,“ segir hún og hlær.
Ásdís Rán vonar að hún valdi aðdáendum sínum ekki vonbrigðum með þessu.
„Það verða kannski ekki allir jafnsáttir og ég með þessa breytingu en vonandi aðlaga IceQueen- aðdáendur sig líka að breyttu útliti á endanum,“ segir hún.