Á föstudagskvöld fór fram þorrablót 10. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði en það eru foreldrar og forráðamenn nemenda bekkjarins sem hafa veg og vanda að blótinu. Kristján Andri Guðjónsson sá um veislustjórn og stýrði fjöldasöng ásamt Ingunni Ósk Sturludóttur, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar, við undirleik Beötu Joó kennara við TÍ.
„Eftir að allir höfðu snætt sinn þorramat úr trogum buðu foreldrar og kennarar upp á skemmtiatriði, sem var mjög vel tekið. Að borðhaldi loknu var svo stiginn dans við harmóníkuleik og var virkilega gaman að sjá unglingana dansa gömlu dansana við foreldra, afa og ömmur,“ segir á vef GÍ en þar má finna fjölda mynda sem teknar voru þetta kvöld.
Þá kemur fram að íslenski þjóðbúningurinn hafi verið áberandi þetta kvöld og skörtuðu allar stúlkur bekkjarins slíkum búningum og setti það skemmtilegan hátíðarsvip á samkomuna.
Sjá frétt á vef Bæjarins besta og á vef Grunnskóla Ísafjarðar.