Tískumerkið Ostwald Helgason, sem er í eigu Ingvars Helgasonar og Susanne Ostwald, sýndi í fyrsta skipti á tískuvikunni í New York um helgina. Erlendir blaðamenn flykktust á sýninguna og voru hrifnir af hönnuninni. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt fatamerki sýnir á þessari frægustu tískuviku í heimi.
„Að fá Vogue, Style.com og alla helstu fjölmiðla á sýninguna okkar er alveg æðislegt. Við erum nú þegar af selja í Saks 5th Avenue og fleiri góðum búðum útum allan heim eða um það bil 90 verslunum í 23 löndum. Net-a-porter, Barney's og Bergdorf Goodman komu á sýninguna líka þannig að þetta er mjög mikilvægt skref fyrir okkur,“ segir Ingvar Helgason og segist hafa lært heilmikið af þessu ferli.
„Þetta var líka mjög lærdómsríkt því að það er alt öðruvísi að vera með „runway“ en presentations eins og við höfum verið með áður. Á svona sýningum þarf að hugsa allt öðruvísi um línuna. Það þarf að hugsa um það hvernig línan hreyfist og virkar á myndum,“ segir hann.