Tískuvikan í New York stendur nú sem hæst og er ekki bara verið að dást að því sem sést á tískupöllunum sjálfum heldur má fá mikla tilfinningu fyrir því hvað sé málið með því að skoða klæðaburð tískusýningagesta.
Af þessum fyrstu myndum sem berast frá stórborginni má glögglega sjá að allar alvöruspariguggur þurfa að eignast svart/hvíta flík með grafísku munstri. Skyrta, samfestingur, kjóll eða buxur er án efa málið. Auk þess er hlébarðaprentið afar heitt um þessar mundir og þá ekki bara í yfirhöfnum heldur í skyrtum, kjólum og jafnvel buxum líkt og svart/hvíta grafíska munstrið.
Hvíti liturinn er einnig mjög áberandi og dragtir eru málið. Það sést best á dönsku ofurfyrirsætunni Helenu Christensen sem mætti í hvítri dragt, með þvertopp og rauðan varalit. Það er eitthvað við þetta útlit sem segir sex.