Konan á bak við útlit söngkonunnar Beyoncé Knowles sagði frá því á dögunum hvað söngkonan gerði til þess að líta sem best út.
Förðunarfræðingurinn Francesca Tolot, sem er goðsögn í förðunariðnaðinum, hitti söngkonuna árið 2003. Þær kynntust þegar Tolot vann með henni og skapaði útlit Knowles í tónlistarmyndbandinu við lagið Crazy In Love. Síðan þá hafa þær verið nánast óaðskiljanlegar.
Í samtali við Into The Gloss dásamaði Tolot söngkonuna og sagði að þrátt fyrir að hún væri heimsfræg hefði það ekki verið vitund vandræðalegt er þær hittust í fyrsta sinn.
„Hún var mjög almennileg, hún er mjög hlý og opin manneskja. Okkur kom strax vel saman. Mér leið mjög vel nálægt henni, auk þess sem hún var mjög þakklát fyrir það sem ég gerði, henni fannst það allt frábært,“ sagði Tolot.
Förðunarfræðingurinn sagði einnig frá lykilatriðinu á bak við óaðfinnanlega húð Knowles, barnaolía væri málið.
Tolot sagði að þær tvær ynnu mikið saman að því að skapa útlit Knowles, en í nýjustu myndböndunum vinnur hún með náttúrulegt útlit.
„Það er eiginlega ekkert útlit sem henni líkar ekki við. Hún er mjög klár – allt sem við gerum er hennar verkefni. Það er hún. Við hættum að nota gerviaugnhár fyrir nokkrum árum, nema í myndbandinu við lagið Blow, þá vildum við búa til myndband í anda sjöunda áratugarins. Einn daginn sagðist ég halda að gerviaugnhár væru á undanhaldi nema maður ætlaði að ná fram retro-útliti. Hún var algjörlega sammála mér,“ sagði Tolot.
Förðunarfræðingurinn hefur ferðast um allan heim með poppdrottningunni og segir að eðlilegt útlit Knowles geri það að verkum að hún þurfi í raun lítið að mála sig og að það erfiðasta sem hún hafi gert hafi verið að láta hana líta út fyrir að vera sjúskuð.
„Þótt ótrúlegt megi virðast þá er það erfiðasta sem ég hef gert að farða hana fyrir Cadillac Records þegar hún leit út fyrir að vera á barmi taugaáfalls. Getið þið ímyndað ykkur vinnuna að reyna gera einhvern sjúskaðan sem er með fullkomna húð, falleg augu og full af gleði,“ sagði Tolot.