Lára Ómarsdóttir varð kjaftstopp þegar hún var spurð út í fötin sem hún klæddist í kosningasjónvarpinu á RÚV.
„Mér finnst skondið að fólk sé að hugsa út í þetta. Ég var bara í mínum eigin fötum og reyndi að vera snyrtilega til fara. RÚV er ekkert með stílista og ég vil endilega taka það fram að mér finnst innihaldið skipta meira máli,“ segir Lára Ómarsdóttir fréttamaður þegar hún er spurð út í klæðaburð sinn í kosningasjónvarpinu. Fólk á samfélagsmiðlunum vildi meina að Lára og samstarfsmaður hennar, Jóhann Hlíðar Harðarson, hefðu verið svolítið austantjaldsleg í klæðaburði á kosninganótt.
Þegar Lára er spurð hvaðan fötin hafi verið sagðist hún ekki muna það. „Mig minnir að ég hafi keypt blússuna á útsölu. Ég hef alltaf þótt fín í henni og þess vegna varð hún fyrir valinu. Það er ekki eins og ég hafi verið í flíspeysu.“
Lára bendir á að á hennar níu ára ferli sem fréttamaður hafi aldrei neinn gert athugasemdir við klæðaburð hennar.
„Það hefur aldrei neinn spurt mig út í þetta enda erum við bara blankir fréttamenn,“ segir hún.
Aðspurð um fatapeninga segir hún þá sáralitla.
„Það er eitthvað rosalega lítið, það dugir varla fyrir flík. RÚV hefur ekki efni á neinu svona. Ég er fréttamaður og lagði ofuráherslu á að það sem ég ætlaði að spyrja um væri í lagi - ég er enginn stílisti,“ segir hún.