Karen Jónsdóttir hugsar vel um heilsuna útlitið og hefur gert lengi. Hún rekur heilsuheildsöluna Kaja organic ehf. en hún lét drauminn rætast þegar hún stofnaði heilsöluna. Hennar helstu áhugamál eru lífræn ræktun og umhyggja fyrir móður jörð. Auk þess er hún mikil áhugamanneskja um súkkulaði. Ég spurði hana spjörunum úr.
Hugsar þú vel um heilsuna? Ég reyni af fremsta megni að huga vel að heilsunni þar sem ég veit að ný heilsa verður ekki keypt úti í búð. Þú átt bara eina heilsu.
Hvað gerir þú dagsdaglega til að láta þér líða betur? Gönguferðir og/eða öll líkamleg áreynsla er nauðsynlegur partur af vellíðan og svo fæ ég mér alltaf dökkt súkkulaði. Gott súkkulaði er mikill gleðigjafi enda uppfullt af næringu og skemmtilegum gleðigjöfum. Manni líður strax betur þegar maður er búinn að fá sér eitt Lovechock.
Hugsar þú mikið um mataræðið og er eitthvað sérstakt sem þú borðar ekki? Já, ég passa hvað ég set ofan í mig. Ég vil hafa matinn sem hreinastan og helst beint frá móður jörð því það er okkur eðlilegast. Síðan reyni ég alltaf að komast hjá öllu erfðabreyttu og borða ekki matvörur sem innihalda HFC eða háfrúktósa síróp öðru nafni maískorn síróp.
Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni? Ég er ekki með neina snyrtibuddu við höndina en á morgnana set ég á mig maskara og augnblýant.
Hvaða dagkrem notar þú? Eitthvað svaka gott krem sem ég keypti í versluninni Bjargi Akranesi.
Hvaða farða notar þú og hvers vegna notar þú hann? Ég nota ekki farða dags daglega, alltof löt í svoleiðis.
Hvað um sólarpúður eða kinnalit, er það eitthvað sem þú getur ekki verið án? Neibb, nota ekkert á húðina, leyfi henni bara að anda, ég gæti ekki lifan án súkkulaðis.
Hvert var fyrsta bjútítrixið sem þú lærðir og hefur notað allar götur síðan? Skvetta ísköldu vatni á andlitið á morgnana, afskaplega hressandi á allan hátt.
Notar þú varalit dagsdaglega? Nei.
Hvert er besta bjútíráð allra tíma fyrir utan að sofa nægilega mikið og drekka vatn? Skrúbba sig hressilega hátt og látt í góðum hita, helst í gufu.