Í nóvember árið 1990 birtist viðtal í Morgunblaðinu við fjölmiðlakonuna Elínu Hirst. Í því viðtali greindi hún frá því að fataskápurinn hennar væri „tvöfaldur“ því í honum væru annarsvegar vinnuföt og hinsvegar hversdagsleg föt.
Elín sagði frá því að pönkaralegur leðurjakki og gallabuxur væru í uppáhaldi hjá henni en svo fengi hún reglulega lánaða jakka af eiginmanni sínum.
Elín man vel eftir því þegar myndin sem fylgdi greininni var tekin.
„Það er gaman að sjá þessa gömlu mynd. Tilefnið var að sýna hvernig fólk sem varð að vera mjög formlega klætt í vinnunni klæddi sig hversdags. Ég var sjónvarpsfréttaþulur á þessum tíma og því alltaf í mjög sparilegum fötum. Á „hversdagsmyndinni“ er ég hins vegar í leðurjakka sem ég keypti í Evu, peysu af manninum mínum, gallabuxum (sem ég elska) og svörtum leðurstígvélum sem ég keypti einnig í Evu. Þessi jakki var rándýr man ég en ég notaði hann ekki mikið en geymdi hann og arfleiddi systurdóttur mína að honum 15 árum seinna,“ útskýrir Elín.
Fékk lánuð föt af afa sínum
Elín fékk ekki aðeins föt lánuð af eiginmanni sínum heldur einnig af afa sínum. „Ég var oft í allt of stórum jökkum og bretti þá upp á ermarnar. Toppurinn var frakki af Vilhjálmi Bjarnasyni, afa mínum (stofnanda Kassagerðarinnar og alnafna núverandi þingmanns), sem ég hélt mikið uppá. Afi var fæddur árið 1900 og var stór og afar stæðilegur maður í sinni tíð, en ég sem sagt fékk lánuð hjá honum föt.“
Elín segir fatastíl sinn ekki hafa breyst mikið með árunum.
„Jú, ég neita því ekki að þingmennskunni fylgja kröfur um formlegan klæðnað sem ég átti dálítið erfitt með að fylgja í upphafi en hef nú vanið mig á og svei mér þá ef ég er ekki bara að fara dálítið inn á þær brautir svona almennt í klæðaburði. En þegar ég er í fríi þá eru það alltaf gallabuxur og stórar peysur sem eru í uppáhaldi.“