Smartland Mörtu Maríu og Gullkúnst Helgu efndu til leiks á dögunum þar sem eiginmenn og kærastar gátu unnið 140.000 króna demantshring eftir Helgu Jónsdóttur gullsmið. Um 500 ástkærar sögur bárust í leikinn og því miður var bara einn hringur í pottinum. Tómas Þorgeirsson datt í lukkupottinn.
„Ég myndi mikið vilja gleðja konuna mína með þessum fallega hring – hún á það svo sannarlega skilið fyrir að vera eins frábær manneskja og hún er. Konan mín er algjör gullmoli, vill allt fyrir alla gera og setur sín vandamál til hliðar til að vera til taks fyrir ættingja og vini.
Hún er besta móðir sem hægt er að hugsa sér – svo þolinmóð og hlý. Konan mín er límið sem heldur þessari fjölskyldu saman og styrkur hennar og elja er eitthvað sem ég dáist að á hverjum degi.
Við höfum verið saman í 15 ár og þar af gift í 10 ár (núna í ár) – við eigum tvö börn og það þriðja á leiðinni. Ég gæti ekki verið heppnari og hamingjusamari með konuna mína og það líf sem hún hefur búið okkur.
Ég er ekki efnaður maður í fjárhagslegum skilningi en langaði mikið að gefa konunni minni eitthvað virkilega fallegt í brúðkaupsafmælisgjöf því ég gat ekki boðið henni upp á mikið sjálfur. Þess vegna væri það algjör himnasending ef konan mín yrði valin til að eignast þennan fallega hring og myndi gleðja hana mjög mikið, eitthvað sem hún á svo sannarlega skilið fyrir að glæða lífið meiri hamingju fyrir aðra í kringum sig,“ sagði Tómas í póstinum sínum sem hann sendi í leikinn.
Hringurinn er með þremur blandslípuðum bláum demöntum og hittir það vel í mark þar sem þau hjónin eiga tvö börn og þriðja á leiðinni í janúar. Má því að segja hver demantur endurspegli börnin þeirra.
„Það var gaman að sjá hve margir tóku þátt og mörg bréfin snertu mig. Það er greinilegt að margir eiga góða konu sem hefðu verið vel að hringnum komnar,“ segir Helga Jónsdóttir gullsmiður.