Rakvélablöð eru fokdýr. Það er því um að gera að hugsa almennilega um tækjabúnaðinn svo að hann megi endast betur. Karlavefurinn GQ tók saman nokkur handhæg ráð, sem konur geta að sjálfsögðu nýtt sér.
1) Undirbúningur er nauðsynlegur. Gott er að vera búinn að mýkja hárin með heitri sturtu og raksápu áður en gengið er til verks. Ef búið er að mýkja hárin verður álagið á blöðin minna.
2) Hreinlæti er mikilvægt. Gott er að halda blöðunum eins hreinum og mögulegt er. Þess vegna ætti að skola þau með vatni eftir aðra hverja stroku, eða svo. Að rakstrinum loknum ætti svo að skola rakvélina almennilega með vatni og þurrka með handklæði vegna þess að...
3) Raki getur dregið úr bitinu á rakvélablöðunum, jafnvel þegar þau eru ekki í notkun. Þess vegna er gott ráð að geyma rakvélina fjarri sturtunni. Eða bara skella henni í loftþéttan plastpoka. Einnig getur verið gott að bera rakvélaolíu á blöðin, olían ver þau gegn raka og er góð fyrir húðina.
Munið svo að rakvélar sem hannaðar eru fyrir karlmenn eru ekki aðeins ódýrari, heldur eru þær oft jafnvel betri en þær sem markaðssettar eru fyrir konur. Ef þið viljið að leggirnir séu silkimjúkir, en þó sleppa við að borga bleika skattinn, má að sjálfsögðu kippa með sér „karla-rakvél“ næst þegar þörf er á að uppfæra.