Þeir eru ekki margir sem bera húðflúr jafn-vel og fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, Aron Gunnarsson. Er hann því örugglega best húðflúraði fyrirliðinn á EM í Frakklandi.
Hér að neðan má sjá myndir af húðflúrum kappans, sem hann hefur birt á Instagram-síðu sinni.
Þetta svala víkingaflúr þekur brjóstkassa Arons. Þrumuguð, víkingaskip og víkingur með fjöll í bakgrunni.
Hægri framhandleggur Arons skartar flúri af Glerá og Glerárkirkju frá heimahögum fyrirliðans.
Póstnúmer á handarbaki kappans. 603 Ak er annað Akureyrarflúr Arons.
Fyrirliðinn er greinilega fjölskyldumaður, því hann er með fæðingarár og upphafsstafi fjölskyldu sinnar á vinstri framhandlegg. Auk þess er hann með biðjandi greipar umkringdar stjörnum á hægri öxl en stjörnurnar standa fyrir systkinabörn hans.
Það eru ekki allir sem vita að Aron ber ættarnafn, en fullt nafn hans er Aron Einar Malmquist Gunnarsson, og hefur hann „Malmquist“ flúrað á handarbak vinstri handar.
Þar að auki er vinstri handleggur Arons þakinn flúrum, en þar er hann með myndir af tveimur englum, Maríu mey, Jesú og Íslandi.