Skartgripahönnuðurinn Þórhildur Þrándardóttir hefur gert það gott undanfarið en hún er konan á bak við merkið Viðja Jewelry. Viðja Jewelry er alveg nýtt skartgripamerki þar sem hver skartgripur er handgerður úr ýmist silfri eða 14k gulli. „Svo nota ég ferskvatnsperlur og skeljar,“ útskýrir Þórhildur sem byrjar í gull- og silfursmíði í Tækniskólanum í haust. „Ég hlakka mikið til að byrja í náminu og að bæta tæknina,“ segir Þórhildur áður en hún svarar nokkrum spurningum um stílinn sinn.
Getur þú lýst þínum fatastíl? „Frekar stílhreinn held ég bara, ég klæðist mikið gallabuxum, t-shirt og leðurjakkanum mínum frá JÖR. Einnig klæðist ég rósóttu og munstruðu þegar ég er í stemmningu fyrir það.“
En þínum skartgripastíl? „Hann er stílhreinn og mínímalískur.“
Fyrir hverju fellur þú yfirleitt? „Flottum gallabuxum og t-shirt.“
Hvað er nauðsynlegt að eiga í fataskápnum sínum þessa stundina? „Föt sem þér líður vel í persónulega væri ég til í, síðan þunnan slopp sem ég gæti notað sem kápu í sumar en hef ekki séð neinn hérna í búðunum.“
Hver er nýjasta flíkin þín í fataskápnum þínum? „Röndótt dress frá Won Hundred.“
Áttu þér uppáhaldsskartgrip? „Já 14k gulleyrnalokkapinnar og silfureyrnalokkapinnar sem eru með perlum á báðum endum báðir frá Viðja Jewelry.“
Hvað finnst þér mest heillandi í vor og sumartískunni? „Munstraðir þunnir bomber-jakkar og allir þessir toppar sem sýna berar axlir.“
Áttu þér tískufyrirmynd? „Nei ég get ekki sagt það, ég klæði mig bara í það sem mér þykir vera flott. En Olsen-systur eru alltaf mjög flottar sem og Olivia Palermo. Einnig finnast mér Christine Centenera, Delfina Delettrez, Saga Sig og Andrea Röfn allar með mjög flottan stíl.“
Hvað er á óskalistanum? „Póleringavél, skópar frá KALDA og náttföt frá P.JAMÉ.“
Áhugasamir geta verslað skartið frá Viðja Jewelry á VIDJA.IS, á Viðja jewelry á Facebook og í gegnum Instagram-síðu Viðja. Það er einnig fáanlegt hjá Hlín Reykdal á Fiskislóð 75 og í Mýrinni í Kringlunni.