Íslenska tískumerkið JÖR var tekið til gjaldþrotaskipta 11. janúar samkvæmt upplýsingum úr Lögbirtingablaðinu. Félagið hélt utan um hönnun á fatalínum JÖR og sá um að reka verslun við Laugaveg 89. JÖR var í eigu Guðmundar Jörundssonar fatahönnuðar og Gunnars Arnar Petersen.
Í samtali við mbl.is. 24. nóvember síðastliðinn sagði Guðmundur Jörundsson að verslunin væri að flytja og allt væri í blóma.
„Það er búin að fara mikil vinna í það verkefni en miklar framkvæmdir liggja fyrir á rýminu, undanfarnir mánuðir hafa því farið í að meta og hanna húsnæðið sem og gerð allra teikninga og upplýsinga sem byggingarfulltrúi krefst,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Starfsemi JÖR á Geirsgötunni verður á tveimur hæðum, á neðri hæðinni verður verslun en stúdíó á efri hæðinni en sú aðstaða hefur hingað til verið í kjallaranum á Laugaveginum. Þá verður jafnframt boðið upp á aðstöðu fyrir hönnuði sem eru að byrja að feta sig áfram í bransanum. Þeir hönnuðir sem fá að koma fá aðstöðuna sér að kostnaðarlausu og að selja vörur sínar í versluninni í átta vikur.
„Þegar við byrjuðum var litla þekkingu að sækja til iðnaðarins og þá sérstaklega verksmiðjuframleiðslu. Maður þurfti bara að keyra á hlutina og reka sig á þá eða ekki,“ segir Guðmundur og bætir við að á árunum frá stofnun JÖR hafi hann safnað að sér mikilli þekkingu, tengiliðum og reynslu. „Við verðum að miðla þessu áfram til annarra hönnuða. Það hefur lengi vantað vettvanginn fyrir fólk til þess að koma og fá aðstoð til að sækja upplýsingar.“
Frétt af mbl.is: JÖR fer í draumahúsnæðið.