Lína Birgitta Camilla Sigurðardóttir er með fágaðan smekk og hefur mikið dálæti á fallegum töskum. Það er því ekki úr vegi að fá að forvitnast aðeins um herlegheitin, en Lína Birgitta sat fyrir svörum.
„Ég á alltof margar töskur að sögn kallsins míns en það má alltaf bæta í safnið,“ segir Lína Birgitta, aðspurð hvort hún eigi margar töskur.
En hvaða gripur skyldi vera í uppáhaldi?
„Eins og er þá er það Gucci Dionysus. Hún er lítil, en það kemst mikið í hana og hún er pínu öðruvísi. Síðan er það Speedy í stærð 25 frá Louis Vuitton en ég nota hana mjög mikið, bæði á ferðalögum og dagsdaglega. Speedy er án efa bestu kaup sem ég hef gert,“ segir Lína Birgitta og bætir við að sér þyki einnig nauðsynlegt að notast við seðlaveski.
Dagsdaglega þykir Línu Birgittu þægilegast að ganga með hliðartösku sem hún getur haft á öxlinni.
„Þægilegasta hliðartaskan mín er frá Prada, en hún liggur rosalega þægilega á manni og aðlagast manni hálfpartinn. Annars kaupi ég mér yfirleitt bara töskur sem ég get notað sem hliðartöskur,“ segir Lína Birgitta og bætir við að forkunnarfögur taska frá YSL sé gjarnan dregin fram fyrir fínni tilefni.
„Ég nota yfirleitt College frá YSL því hún er með bandi yfir öxlina sem ég get tekið af, þannig að ég get haft hana sem hliðartösku eða í hendinni, sem „lúkkar“ vel.“
Konur eru þekktar fyrir að burðast með alls kyns glingur í töskum sínum, en hvað skyldi að jafnaði leynast í handtösku Línu Birgittu?
„Hleðslubanki fyrir símann, gloss, seðlaveski, handspritt, handáburður, tyggjó og blautþurrkur. Þetta er staðalbúnaðurinn minn,“ segir Lína Birgitta, sem viðurkennir að stundum leynist svolítið drasl í töskunni þótt hún sé yfirleitt mjög skipulögð. Þá segir hún að handspritt og handáburður sé nokkuð sem hún skilji ekki við sig og megi alltaf finna í veskinu. En hvernig taska er á óskalistanum?
„Mig langar að fá mér Diorama frá Dior í gráum lit. Hún er ótrúlega falleg,“ segir Lína Birgitta í lokin.