Það er vel þekkt innan hagfræðinnar að tískan fer í hringi og er ágætis mælikvarði á efnahagslega stöðu hverju sinni í heiminum. Hagfræðingurinn George Taylor var einn sá fyrsti til að koma fram með þetta árið 1926 þar sem hann talaði um vísitölu pilslengdar. Við veltum fyrir okkur hvort kreppa sé á næsta leiti.
Samkvæmt vísitölu pilslengdar fara pilsin upp í sama takti og hlutabréf á markaðnum. Þeim mun styttri sem pilsin eru, þeim mun meira hækka hlutabréfin. Þegar kreppir að lengist í pilssíddinni. Þetta muna glöggir frá árunum 1920 og 1960 þegar mínípilsin voru í tísku, og svo í stóru kreppunni árið 1929 þegar pilsin urðu síð aftur. Hagfræðingar hafa fundið jákvæða fylgni þarna á milli í gegnum söguna.
Ásýnd segir sína sögu
Það sama má segja um ásýnd tískunnar. Þegar efnahagslegur uppgangur er hvað mestur má sjá stærstu tískuhúsin úti í heimi koma fram með hluti sem minna lítið á tísku og meira á slys. Þeir setja saman ólík mynstur og liti og lítið ber á klassíkinni sem þessi sömu tískuhús bjóða upp á í efnahagslegri lægð.
Margir af þekktustu hagfræðingum heims sækja tískuvikur til að átta sig á hagkerfinu. Eftirfarandi myndir af sumartískunni 2018 gefa vísbendingu um að margt hafi verið í gangi í hagkerfinu að undanförnu. Mikil óvissa ríkir á mörkuðum og ólíkir hlutir hafa áhrif á hagkerfið. Sumir myndu jafnvel orða það þannig að kreppa væri á næsta leiti. Balenciaga bauð Crocs-elskendum upp á skó við rándýru flíkurnar, sem lýsir óvissunni best. Myndirnar sýna tískuna frá Coco Chanel og Gucci. Dæmi hver fyrir sig.