Leikkonan Charlotte Rampling er þekkt fyrir sinn eigin stíl sem einkennist af miklum innri styrk sem hún segist hafa fengið í sængurgjöf. Hún ber fatnað í anda sjöunda áratugsins einstaklega vel, en það er eitthvað meira, eitthvað undirliggjandi sem erfitt er að festa hendur á sem gerir stílinn hennar einstakan.
Við höldum áfram að feta okkur áfram í frumskógi tískunnar og spyrjum nýrrar af hverju-spurningar í þessu samhengi.
https://www.mbl.is/smartland/tiska/2018/01/28/af_hverju_faerdu_ekki_fot_lanud_hja_kaerastanum/
Freknur eru fallegar
Rampling hefur alltaf verið fallega til fara með huggulegt hár og frísklega húð. Hún hefur í gegnum söguna verið notuð sem sönnun þess að freknur eru fallegar. Prófaðu þig áfram í förðun, þannig að í staðinn fyrir að fela freknurnar með miklum farða eins og þekkist í dag, að hafa lítinn farða og nota kinnalit. Förðun sem stenst dagsljósið er einkennismerki Rampling.
Berðu fatnaðinn af öryggi
Rampling hefur talað um það í viðtölum að hún hafi þennan innri styrk sem kemur svo vel fram í hvernig hún kemur fram. Hún er engum háð og hefur sagt að ef til þess kæmi, ætti hún ekki í neinum vandræðum að vera án fólks, ein í heiminum.
„Ef allir eru að fara í eina áttina, væri ég vís að fara í aðra átt.“ Þessi litla setning segir svo mikið. Hún klæðir sig ekki upp á fyrir aðra, heldur fyrir sig sjálfa. Hún þarf ekki á öðrum að halda, hún getur verið ein. Þess vegna ber hún fatnað sinn af öryggi.
Vertu sátt við líkama þinn
Charlotte Rampling kemur fram eins og hún er. Hún er, andstætt við svo marga aðra í dag, ekki að breyta líkamanum á sér. Ofurstórir rassar eða brjóst er ekki klassískt, í raun langt frá því að vera eðlilegt þegar fólk er að láta blása upp á sér einn líkamspart umfram annan.
Prófaðu að skoða líkama þinn og finndu leið til að elska hann eins og hann er. Æfðu þig í að setja á þig krem, og næra hann á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt.
Haltu þig við það sem þér líkar
Charlotte Rampling er ein þeirra sem minnir okkur á að setja fókusinn á það sem skiptir máli í lífinu. Þegar þig langar að komast út úr sjálfri þér, að kaupa allt nýtt eða breyta miklu. Mundu þá að rækta þig innan frá.
Við þurfum ekki að mæta á hverjum degi í nýjum fötum í vinnuna, eða eiga allt það nýjasta. Við getum nært á okkur hárið, lesið góða bók og gert fleira til að næra okkur innan frá sem gerir það ólíklegra að við viljum flýja í öfgana. Charlotte Rampling gerir þetta vel.