Leikarinn Jared Leto er þekktur fyrir tískuáhuga sinn og klæðist sjaldan bara venjulegum svörtum jakkaföt. Fyrir nokkrum vikum mætti Leto á rauða dregilinn í hælum.
Við hvít jakkaföt og hvíta flegna skyrtu klæddist Leto skóm með ágætlega háum hæl en samkvæmt People er allt dressið frá Helmut Lang. Lang segist ekki setja mörk milli kynja þegar kemur að hönnun.
Leto er ekki hár í loftinu en hann er 175 sentímetrar á hæð og hækkaði því aðeins á hælunum en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann notar hælaskó. Leto lék transkona í myndinni Dallas Buyers Club frá árinu 2013.
Í viðtali við Cosmopolitan í tengsum við myndina mælti hann með því að menn prófuðu að ganga í háum hælum. „Ég held að það gefi þér dýpri skilning og þakklæti á konum í heiminum.“
Leto mætti reyndar bara í flatbotnaskóm í Óskarsverðlaunapartý Vanity Fair á dögunum. Hann kunni þó greinilega vel við flegnu skyrtuna frá Lang þar sem hann klæddist alveg eins, bara í öðrum lit, í partýinu.