Útlitið snýst um smáatriðin. Glans á hári eða jafnvel bara augabrúnir. Við höldum áfram að fóta okkur áfram í frumskógi tískunnar og spyrjum að þessu sinni af hverju þú hafir ekki augabrúnirnar þínar beinar í anda helstu tískufyrirmynda í heiminum.
Þegar að kemur að augabrúnum þá erum við margar hverjar alls ekki nógu kröfuharðar. Á Íslandi eru fjölmargir fagmenn sem eru sérstaklega góðir að lita augabrúnir og hár, en þegar við vitum ekki hvað við viljum er erfitt að gera okkur til geðs. Þegar kemur að klassískri fegurð er eitt sem margar konur eiga sameiginlegt og það er lögun augabrúna. Coco Chanel var fyrst kvenna til að draga augabrúnir sínar á þennan sérstaka hátt, en á eftir henni hafa fjölmargar fallegar konur fylgt á eftir. Meðal annars hin ógleymanlega Diana Vreeland og Audrey Hepburn.
Konur frá Asíu, sér í lagi Kóreu, eru margar hverjar mjög lagnar við þessa gerð af augabrúnum enda eru þær klassískar og fallegar og með einstakt lag á því að gefa smáatriðum gaum.
Af konum í dag sem gera þetta vel má nefna fyrirsætuna Cara Delevingne. Eins má nefna leikkonurnar Jennifer Connelly, Natalie Portman og Jessica Alba.
Það sem þarf að hafa í huga er að plokka hæsta punkt augabrúnanna aðeins sem og undir þær í endann. En eflaust er best að leita til fagfólks með þetta eins og annað. Jafnframt er fallegt að augabrúnir séu í sama lit og hárrótin.
Við vonum svo sannarlega að þessi málaflokkur verði valdeflandi fyrir konur í landinu og gefi þeim hugmyndir sem þær geta notað til að byggja sig upp og verða frjálsar til að gera hluti sem þær langar til sjálfar. Upphafið að því að breyta til og fara út fyrir þægindarammann er að okkar mati að varpa ljósi á hluti sem okkur þykja áhugaverðir. Tíska og útlit getur verið vandasamt málefni að ræða. Greinin er ekki gagnrýni á allar þær frábæru konur sem eru á sínum forsendum, heldur til að opna augun fyrir margvíslegum hlutum þegar kemur að tísku og útliti.