Er ekki kominn tími á Jane Fonda-æfingarnar góðu aftur? Langar línur, húmor og gleði eru eitthvað svo miklu hressilegra ásýndar en ofurskyggð andlit og íturvaxnir bossar.
Hver man ekki eftir æfingunum hennar Jane Fonda frá því á níunda áratug síðustu aldar? Smartland heldur áfram að fóta sig áfram í frumskógi tískunnar og veltir upp þeirri spurningu hvort æfingar Jane Fonda eigi ennþá við.
Flestar konur sem vildu vera í formi á níunda áratug síðustu aldar skunduðu í Kramhúsið og gerðu Jane Fonda-æfingar ásamt því að tyggja megrunarkaramellur úr Heilsuhúsinu og drekka Tab úr næstu kjörbúð.
Jane Fonda er ennþá í hörkuformi og Smartland veltir því upp hér hvort ekki sé kominn tími á langar línur í staðinn fyrir útblásna bossa sem ekkert vit virðist í þegar litið er á málin praktískt.
Jane Fonda er þekkt fyrir margt, meðal annars þá staðhæfingu sína að hún vilji ekki snerta við andlitinu á sér með aðgerðum, af því hún vill ekki líta út eins og allar konur sem henni finnst eins eftir fegrunaraðgerðir.
Jane Fonda-æfingarplanið var létt og skemmtilegt og snérist allt um hreyfingu og styrkleikaæfingar. Miðpunktur þessara æfinga var góð tónlist og falleg dress sem virðast vera að komast í tísku. Svo af hverju ekki að setja bara myndband af henni í tækið og byrja að taka á því heima?