Íslenska karlalandsliðið í fótbolta var vel klætt þegar það hélt til Rússlands. Þeir klæddust sérsaumuðum fötum frá Herragarðinum og það vakti athygli að jakkinn og buxurnar voru sitt í hvorum litnum. Rúrik Gíslason vildi hafa buxurnar sínar þrengri og með styttri jakkaermum en hinir.
Davíð Einarsson, markaðsstjóri Herragarðsins, segir að markmiðið hafi verið að hafa strákana vel klædda en ekki eins sparilega og þegar þeir fóru á EM.
„Þessi samsetning var valin með það í huga að vera ekki eins fínir og fyrir síðasta stórmót. Að vera í stökum jakka og stökum buxum er aðeins hversdagslegra,“ segir Davíð.
Vilhjálmur Svan Vilhjálmsson, verslunarstjóri Herragarðsins, setti dressið saman í samráði við strákana í landsliðinu. Hann setti því saman heildarpakka sem innihélt jakka, buxur, skó, skyrtu og belti. Davíð segir að strákarnir okkar hafi verið himinlifandi með fötin.
„Þeir voru rosalega ánægðir með fötin þegar þeir fengu þau í hendurnar,“ segir hann.
Davíð segir að strákarnir okkar séu í sérsaumuðum fötum frá Herragarðinum.
„Jakkinn er úr 100% ull og er þessi tegund mjög þægileg í ferðalögum og krumpast lítið sem ekkert. Buxurnar eru líka 100% ull og eru þau úr einu besta vinnuefni sem við bjóðum upp á. Ef viðkomandi ætlar að nota föt í vinnu mælum við ávallt með þessari tegund af ull. Skyrtan er frá einu besta skyrtufyrirtæki í heimi, Stenströms. Þeir hafa saumað skyrtur síðan 1899 og svona til gamans má geta að Karl Gústaf Svíakonungur er alltaf í skyrtum frá þeim. Skórnir eru frá Lloyd sem nú flestir þekkja úr einu besta leðri sem þeir bjóða upp á. Silkibindi og leður belti í stíl við skóna er svo eitthvað sem setur punktinn yfir i-ið.“
Þegar föt eru sérsaumuð í Herragarðinum er hægt að fá allskonar séróskir uppfylltar. Hjá strákunum okkar er eitt hnappagatið á erminni rautt og hin blá og undir kraganum stendur Fyrir Ísland. Auk þess eru fötin merkt með fullu nafni svo eitthvað sé nefnt.
„Sem dæmi vildi Rúrik hafa buxurnar sínar vel þröngar niður skálmina og ermarnar stuttar svo sjáist vel í skyrtuna, hann er alveg með þetta,“ segir Davíð.
Þeir sem vilja að fötin smellpassi og séu klæðskerasniðin í orðsins fyllstu merkingu ættu að fíla sérsauminn í botn. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að mannfólkið sé vaxið eins og gínur í stöðluðum stærðum.
„Í sérsaumi felst fullkomið snið á jakkafötum úr efni sem þú velur með tölum og fóðri sem passar við. Í sérsaumi ræður þú ferðinni, hvernig þú vilt hafa jakkann og buxurnar í sniðinu, þröngar eða víðar og svo framvegis. Ferlið er frekar einfalt, viðkomandi pantar tíma, kemur svo í mælingu og þá er valið efni, fóður innan í jakkann og buxurnar, stíllinn á fötunum og öll litlu smáatriðin sem gera fötin sérstök. Þetta er mjög vinsælt á meðal brúðguma, útskriftarnemenda og meðal þeirra sem eru annars erfiðir í vaxtarlagi og langar í föt sem passa fullkomlega.“