Hvítir strigaskór hafa verið í tísku undanfarin ár en strigaskórnir eru ekki bara fyrir ungt fólk á Instagram. Vilhjálmur Bretaprins veitti Óskarsverðlaunaleikkonunni Emmu Thompson heiðursnafnbót í Buckingham-höll í vikunni og vakti skóbúnaður hinnar 59 ára gömlu leikkonu mikla athygli.
Thomson var í hvítum strigaskóm við fallega bláa buxnadragt frá Stellu McCartney. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Thompson vekur athygli fyrir að ögra gömlum gildum um skóbúnað kvenna.
Á Golden Globe-verðlaununum árið 2014 mætti hún á svið berfætt með Christian Louboutin-hælana sína í annarri hendi og vínglas í hinni. Grínaðist hún með að rauði sólinn á hælunum væri blóð hennar. Þegar henni var afhent umslag með verðlaunahafanum sem hún var að kynna henti hún skónum aftur fyrir sig.