Sunneva Ása Weisshappel er einn áhugaverðasti búningahönnuður samtímans. Hún fyrirlítur stefnu tískuheimsins en vill að tilvist hennar gefi konum kraft og hjálpi til við að víkka einlita heimsmyndina sem er að mestu sköpuð af valdakörlum að hennar mati.
„Ég held að eitt af því sem einkennir mína persónu sé það að ég óttast ekki það ókunna heldur þvert á móti heillast ég af því. Þetta þýðir að ég sveiflast á milli listgreina og tímabila í lífinu af talsvert meiri hraða en algengt er.“
Hvernig kom það til að þú byrjaðir að starfa við leikhús?
„Ég fékk hringingu einn daginn frá leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarsyni, sem ég þekkti ekki þá. Hann kynnti sig og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að vinna við leikhús, ég sagðist alveg geta hugsað mér að vera leikstjóri. Hann hló og sagði sjálfur vera leikstjóri en hvort ég hefði áhuga á búningahönnun. Þá sagði ég: nei það hef ég ekki, því ég er myndlistarmaður. Ég skildi ekkert hvað hann var að segja en hann var sannfærandi að fá mig með í uppfærslu Njálu í Borgarleikhúsinu. Þar starfaði ég með íslenska dansflokkinum, Ilmi Stefáns, Ernu Ómars og Mikael Torfasyni og fleira frábæru listafólki. Þorleifur lofaði mér listrænu frelsi og þátttöku í öllu ferlinu,“ segir Sunneva og útskýrir að þar með var hún orðinn hluti af listræna teymi Njálu. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir vinnuna sína í því verki. „Það var auðvitað óvænt því þetta var frumraun mín. Eftir þetta var einhver alda risin sem ómögulegt var að fylgja ekki eftir til að sjá hvert hún myndi skola mér.“
Hvernig getur myndlist komið inn á sviði tísku og hönnunar?
„Ég tel að sama hvaða listform er átt við þá ryðji myndlistin oftar en ekki brautina. Hún fær frelsi til að prufa sig áfram og gera mistök; að rannsaka. Myndlistin er á einhvern hátt eins og kvíslarnar sem búa til leið fyrir árfarveginn til að flæða í. Hin listformin eins og tíska og hönnun eru að ég held meira viðurkennd eða skilin af samfélaginu því þau eiga auðveldara með að búa til afurð sem er seljanleg. Í neysluheiminum sem við lifum í þá verða þannig miðlar aðgengilegri samfélaginu. Myndlistin er á einhvern mjög furðulegan hátt annað hvort verðlaus eða aðeins fyrir þá ríkustu sem stöðutákn.“
Hvaða merkingu leggur þú í tískuna og fatnað almennt?
„Ég klæði mig eiginlega alltaf eftir líðandi stund og skapi. Stundum er ég klædd eins og uppreisnargjarn unglingur eða fjaðurskreyttur fugl, drottning og götukrakki, tískulögga eða viðskiptakona. Kardashian stelpa á fótboltavelli. Ég er andstæður í allar áttir. Royal búðingur, laxatartar, hamborgari og „creme brulee“.
Þekkir þú tískusöguna og er eitthvert tímabil sem heillar þig meira en annað?
„Ég elska Rococo-tímabilið (1730-1780). Mér finnst það bæði sjúklega fyndið og svo kjarnar það vel andstæðurnar í okkur mannfólkinu; hégómann, spillinguna, óöryggið, stéttskiptinguna og yfirborðsmennskuna. Ósjálfbjarga hefðarfólk í svo stórum klæðnaði að það gat ekki klætt sig sjálft, með rjómatertur á höfðinu og þjóna á eftir sér. Gamlir karlar með kirsuberjakinnar og hárkollur, í pinnaskóm með slaufur og snopp að búa til lög og reglur. Hefðarfólk að gera hægðir sínar á bakvið stórar gardínur og láta þjónana þrífa eftir sig. „Rococo“ tímabilið er brjálæðislega „súrealískt“ og „absúrd“ tímabil í tískusögunni sem ég sæki gjarnan árhif í.“
Hvað með hátískuna?
„Ég tel að hátískan sæki oft áhrif sín í myndlist. Í hátískunni leyfa tískuhönnuðir sér að búa til flíkur sem eru meira eins og skúlptúrar, áferð og form. Þar finnst mér sjálft listformið liggja, hver líkami er sérstakur og hægt er að skoða hann til dæmis eins og striga í málverki. Mér finnst auðvelt að vinna hönnun því þú ert með svo góðan striga í höndunum. Grunnurinn er svo góður, sjálf manneskjan. Ég vinn til dæmis ólíkt eftir því á hvern ég hanna, fyrir hvað, í hvaða tilgangi og hvernig líkaminn er í laginu. Ég sæki gjarnan áhrif í Alexander Mcqueen og fleiri tískusnillinga.“ Í erlendri leikhúsgagnrýni hefur vinnu Sunnevu gjarnan verið líkt við hátísku á borð við Gucci, Mcqueen og fleiri risa. „Þá er það eftir því sem ég fæ best skilið á grundvelli þessarar tengingar minnar við myndlistina.“ Það hefur einnig verið fjallað um verk hennar í samhengi við súrrealismann og henni líkt við stórmenni á borð við Federico Fellini.
Ertu búin að finna þinn tilgang í lífinu?
„Nei, ég er ekki búin að finna hinn eiginlega tilgang í lífinu en það sem ég veit núna er að ég ætla að leggja allt sem ég hef í listina og svo mig langar að vera góð mamma, dóttir og systir. Ég vil að tilvist mín í þessum heimi gefi öðrum konum kraft og hjálpi til við að víkka einlita heimsmynd okkar sem er að mestu sköpuð af valdakörlum. Ég hef alltaf haft mikla réttlætisþörf og mér svíður óréttlætið í heiminum og misskiptingin. Ég áttaði mig á því ung að hæfileikum mínum væri best varið í listum og mig langar að gefa allt sem ég hef í það.“
Hvernig tjáir þú þig með fatnaði?
„Ég gekk í gegnum ólík tímabil á mótunarárum mínum og mátaði mig í mismunandi aðstæðum. Í dag blanda ég öllum tímabilum saman og prufa alltaf eitthvað nýtt, bara eftir því í hvaða skapi ég er. Fatnaður fyrir mér er bara framlenging tilfinninga minna, fatnaðurinn er strigi innra ástands. Um tveggja ára aldurinn gat mamma ekki lengur skipt sér af því í hvaða föt ég klæddi mig því ég fékk æðiskast og blóðnasir ef ég fékk ekki mínu framgengt. Ég hef alltaf viljað fara mínar eigin leiðir, er elst systra minna og sjálfstæð. Ég vann í tískufataverslunum sem unglingur þar sem ég valdi mér föt til að vinna í þann daginn, samstarfsmenn mínir hlógu gjarnan að mér vegna fatnaðsins sem ég valdi á sjálfa mig í verslununum. Þegar ég var í gaggó mætti ég í náttfötum og hettupeysu í skólann því ég neitaði að fara í óþægileg föt fyrir hádegi.
Um tvítugsaldurinn prjónaði ég á mig húfur með horn, saumaði fötin mín sjálf og gekk um bæinn í trúðabúning með hárkollur. Ég var líka pönkari og klippti af mér hárið og gataði á mér vörina því ég var með ógeð á því að vera ljóshærð og sæt stelpa. Mér fannst ekki hlustað á mig og ekki tekið mark á mér. Mín leið varðandi þá tilfinningu var að fara í uppreisn við eigið útlit. Eftir það tímabil ákvað ég að snúa stefnunni alveg við og að klæðast stórum bleikum prinsessukjólum. Ég vildi breyta táknmynd prinsessunnar og sýna hana sem unga, sterka og sjálfstæða konu. Í Listaháskólanum þótti töff að vera latur og reykja hass og þá mætti ég í þröngum íþróttagalla í skólann og varði mínum stundum á hlaupabrettinu í World Class. Ég reyni að gera bara það sem mig langar í klæðnaði og láta ekki álit annarra skipta máli, en er þó samt er orðin öllu vön. Á Íslandi hefur fólk meira skoðanir á því hverju maður klæðist en í stórborgum þekkir mann enginn og öllum er alveg sama. Mér leiðist að klæða mig eins og allir hinir og finnst gaman að prufa eitthvað nýtt þegar mér finnst eins og allir litir starfrófsins eru eins.“
Er eitthvað sem þér ekki líkar þegar kemur að tísku?
„Já, mér líkar alls ekki við þessa ofgnótt og fjöldaframleiðslu á fötum og drasli. Hvernig gróðahyggjan og neyslusamfélagið gerir mann háðan nýjum fötum og nýju dóti. Mér mislíkar að dýr séu drepin og notuð í fatagerð og ég fyrirlít hvernig stórum hluta tískuheimsins er stýrt og okkur sífellt gefin þau skilaboð að við séum ekki nóg. Ég fyrirlít hvernig tískuheimurinn brýtur niður allar konur sem ég þekki, einnig mig sjálfa og sín eigin módel. Fyrir mér eiga föt og tíska að gefa lífinu lit, vera skemmtileg og hjálpa okkur að tjá okkur en ekki brjóta okkur niður. Tíska á að sýna fjölbreytileika og setja bragð á heiminn en ekki hjálpa okkur í að útiloka hvert annað og níðast á hvert öðru, bjóta fólk niður fyrir að vera öðruvísi og svo framvegis. Ég virkilega fyrirlít þá hlið þessa heims.“
Er eitthvað sem þú ert persónulega að vinna að því að hafa áhrif á?
„Ég vil hafa áhrif á heiminn í gegn um listina mína. Ég vil vera metin af verðleikum mínum, fyrir það sem ég geri og fyrir það sem ég segi. Ég vil veita öðrum styrk til að fylgja hjarta sínu og ekki láta brjóta sig niður fyrir að vera öðruvísi. Við erum öll öðruvísi. Ég vil beita mér í baráttunni við ofbeldi og óréttlæti gegn konum og flóttafólki og ég vil hjálpa til við að vernda náttúruna og hjálpa fíklum. Um daginn fór ég á forsýningu Lof mér að falla, og sú upplifun meðal annars sýndi mér hversu miklu máli listin skiptir og hversu mikil áhrif hún getur haft. Magnað listaverk. Stundum fá listaverk vængi og geta breytt heiminum.
Ég trúi því líka að við getum haft áhrif á heiminn með öllum okkar gjörðum. Manneskja þarf ekki að vera listamaður eða í valdastöðu til að geta látið gott af sér leiða heldur krefst það fyrst og fremst hugrekkis. Við þurfum að vera hugrökk til að mótmæla því sem okkur finnst ranglátt og eftir því sem fólk er jaðarsettara þeim mun meira hugrekkis krefst hver einasta barátta sem það heyr fyrir því sem það trúir á. Heimurinn er ein heild og það á ekki að vera hlutverk þeirra útvöldu að berjast fyrir því að hann þróist í átt að fegurðinni og réttlætinu. Ég nota þau verkfæri sem ég þekki sem er listin en ég dáist ekki síður að öðrum aðferðum og fólki sem stendur með sannfæringu sinni og beitir innsæinu í öllum þessu daglegu orustum sem þarf að heyja til að mjaka okkur í rétta átt.“
Hvað er gott líf í þínum huga?
„Að gera betur í dag en í gær. Að vera hluti af flæðinu og þurfa ekki að þvinga fram fyrirframgefnar niðurstöður heldur treysta því að með því að gera sitt besta og hlusta á innsæið þá fari hlutirnir á þann veg sem þeim var ætlað. Þetta á bæði við um lífið og listina.“