The Guardian fjallar um sýninguna en það sem vakti hvað mesta athygli erlendra fjölmiðla er sú staðreynd að Karl Lagerfeld var hvergi viðstaddur hana. Þetta ku vera í fyrsta skiptið sem listræni stjórnandinn er fjarverandi. Lagerfeld sem hóf feril sinn árið 1955 fyrir Pierre Balmain tók við sem listrænn stjórnandi Chanel árið 1983.
Hann er nú orðinn 85 ára gamall og hefur samkvæmt erlendum fjölmiðlum verið heilsulítill að undanförnu.
Tilkynning kom frá tískuhúsinu eftir sýninguna um að listræni stjórnandinn hafi verið of þreyttur til að koma á sýninguna. Fyrir hans hönd mætti Virginie Viard, yfirmaður listrænnar deildar Chanel.
Ef marka má hátískulínu Chanel um þessar mundir verða snið í anda sjötta áratugar síðustu alda vinsæl. Það var ýmislegt sem minnir einnig á níunda áratuginn, meðal annars förðun og hár.
Það þykir einstakt hvað Lagerfield hefur tekist að nýta sér nýjustu tækni þegar kemur að efnum. Eins þykir margt við tískulínuna í ár minna á framtíðina. En Coco Chanel sjálf var einstaklega íhaldssöm þegar kom að því að breyta tískulínum sínum á milli ára.
Lokaatriðið vakti mikla athygli þar sem brúður mætti á sýningarpallana í sundbol og með sundhettu í anda Great Gatsby-áranna.