Bradley Cooper er með eitt fallegasta hárið í Hollywood í dag. Það hefði þó ekki þótt við hæfi að mæta á Óskarinn með ósnyrt skegg og fitugt hár eins og persóna hans Jackson Maine hefði gert. Þrátt fyrir það vottaði örlítið fyrir áhrifum Maine á Óskarnum enda Cooper þekktur fyrir afslappaðan hárstíl.
Ef þú vilt ná hárstílnum í anda Coopers er gott að fara eftir ráðum sem hárgreiðslukona leikarans deildi með lesendum Men's Health. Natalia Bruschi er konan sem ber ábyrgð á hári Cooper.
Þvoðu hárið daginn áður
Bruschi mælir með því að setja sjampó í hárið kvöldið áður og sofa svo á hárinu blautu þannig að gott sé að vinna með það daginn eftir.
Kremkennt gel til að móta hárið
Bruschi notar kremkennt gel til þess að móta hár Coopers. Nuddar hún kreminu í lófana og svo dreifir hún því jafnt í hárið, fyrst að aftanverðu, svo á kollinn og hliðarnar og síðustu agnirnar setur hún í toppinn. Það síðasta sem hún vill sjá eru stórar klessur í miðju hárinu að framan.
Notar puttana í hárið
Til þess að láta hárið líta út eins afslappað og það gerir hjá Cooper forðast Bruschi að nota greiður og hárbursta. Segist hún aðallega leika við hárið með fingrum og höndum.
Hársprey er bannað
Lykillinn hjá Cooper er að það er ekkert sem fullkomnar hárið í lokin. Bruschi segir Cooper kunna best við hárið náttúrulegt og því er ekkert hársprey notað til þess að fullkomna útlitið. Nauðsynlegt er að renna höndunum í gegnum hárið til þess að dreifa olíunni og efnunum vel.
Hugsaðu vel um skeggið
Bruschi notar sérstakt serum í skeggið sem hún notar einnig í hár Coopers og á húð hans. Segir hún það gefa hárinu raka og mýkja það. Því næst setur hún krem í skeggið sem nærir skeggið en mótar um leið.
Snyrtu skeggið
Bruschi mælir með að snyrta skeggið samdægurs enda þarf að snyrta skegg mun oftar svo formið haldi.