„Hrukkur minnka, húðin verður fallegri, hárið heilbrigðara og liðamótin mýkri ef við bætum kollageni á innkaupalistann - ef marka má auglýsingar. Fyrir ári síðan var nær ómögulegt að finna kollagen í búðum en núna blasir það hvítvetna við, jafnvel við búðarkassann,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir í sínum nýjasta pistli:
Þó svo að það sé gott að eldast (já, það er vísindalega staðfest að við verðum hamingjusamari með árunum) þá þarf maður ekki að slá hendinni á móti lausnum sem lina öldrunareinkenna og gera mann aðeins hressari og sætari.
Eitt af öldrunareinkennunum sem bættist í safnið mitt var að augnhárin byrjuðu að tína tölunni - þessi sem áður nudduðust í gleraugu og byrgðu sýn. Á meðan ég var að gera upp við mig hvort ég ætlaði að taka í sátt augnhárin sem ég gat nú talið á fingrum annarrar handar eða fá mér gerviaugnhár ákvað ég að prófa kollagenið sem við vorum nýbúnar að taka í sölu hjá HÚÐIN skin clinic, því ég á erfitt með að mæla með einhverju án þess að hafa gert tilraun á eigin skinni.
Ég hafði reyndar pantað mér tíma í augnháralengingar til öryggis en biðin var nokkrar vikur. Sumum finnst þetta kannski pjatt en það sem er óþarfi fyrir einn getur skipt máli máli fyrir annan.
Ég tók kollagenið samviskusamlega. Fjögur hylki að morgni á fastandi maga og önnur fjögur áður en ég fór í háttinn - samtals 2 grömm á dag. Eftir þrjár vikur afbókaði ég lengingarnar því augnhárin byrjuðu að spretta fram. Það var líkt og þau hefðu vaknað úr djúpum dvala. Þessi gömlu góðu voru komin aftur, kannski ekki eins og þegar ég var tvítug en þau duga mér.
Í sannleika sagt bjóst ég ekki við þessu og fór að velta fyrir mér hvernig kollagen geti haft þessi áhrif. Þar sem ég er alin upp að hluta í vísindum set ég alltaf spurningarmerki við fæðubótarefni því í sumum rannsóknum hafa þau reynst skaðleg og í öðrum rannsóknum gagnslaus. Því lagðist ég í rannsóknarleiðangur og í næstu þremur pistlum ætla ég að deila með ykkur því sem ég komst að. Hvað er eiginlega þetta kollagen - er það æskubrunnur eða enn annað tískuæðið?