„Í húðinni þinni eru kröftugir smiðir að störfum allan sólarhringinn - eins og smiðirnir sem eru að gera borgir og bæi fegurri. Nema smiðirnir í húðinni (kallast réttu nafni bandvefsfrumur) smíða aðallega kollagen og aðra góða muni. Í húðinni er mest smíðað á miðhæðinni (leðurhúð) en líka á öðrum hæðum og víðar í kroppnum,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í sínum nýjasta pistli:
Ómissandi verkfæri
Eins og húsasmiður notar hamar til að smíða notar kollagensmiður C-vítamín til að byggja kollagen. Án C-vítamíns getur hann ekki búið til kollagen og án kollagens verða blóðæðar, sinar og húð brothætt. Það er tiltölulega lítið mál að fá nóg C-vítamín, til dæmis með því að borða daglega grænt grænmeti eða ferskan sítrusávöxt eins og appelsínu eða greipaldin.
Á átjándu öld var ekki óalgengt að sjómenn og aðrir sem ferðuðust lengi við erfiðar aðstæður upplifðu mikla þreytu og stoðkerfisverki, blæðingar í húð, sár greru ekki, þeir fengu tannholdsbólgu og misstu jafnvel tennur. Skoski læknirinn James Lind (1716-1794) sem er oft nefndur frumkvöðull næringarfræðinnar gerði tilraunir á sjómönnum sem veiktust á langferðum sínum og uppgötvaði orsökina. Hann nefndi sjúkdóminn skyrbjúg (e. scurvy) og lækningin var sítróna eða appelsína. Sjúkdómseinkenni sjómannanna voru afleiðing skorts á kollageni.
Annar veikist og hinn styrkist
Eftir 25 ára aldur fara smiðirnir að þreytast og á sama tíma eflist skemmdarvargur nokkur sem gengur undir nafninu kollagenasi en hann býr einnig á miðhæðinni og hefur ánægju af því að brjóta í sundur kollagen. Félagi hans gelatínasi er duglegur að hjálpa honum. Þeir tilheyra genginu MMP (matrix metalloproteinases) sem er þekktast fyrir að brjóta niður prótein eins og kollagen.
Langvinn bólga er eldsneyti fyrir MMP-gengið sem brýtur kollagen hraðar niður. Það er líkleg ástæða þess að fólki finnst húðin oft eldast hraðar eftir langvinn veikindi eða streitu. Sólböð, bólguhvetjandi mataræði (sykur getur aukið bólgusvörun en ávextir og grænmeti minnkað), mengun og reykingar eru einnig vatn á myllu þeirra félaga. Gengi þetta er þó ekki alslæmt því liðsmenn þess hjálpa til dæmis til við að láta sár gróa, til dæmis með því að láta líkamann hreinsa vef sem hefur skaddast.
Nettótap yfir ævina
Þar sem skemmdarvargarnir eflast á sama tíma og smiðirnir þreytast þá töpum við árlega um 1% af kollageni eftir 25 ára aldur. Þegar kemur að tíðahvörfum tapast kollagen enn hraðar. Konur missa allt að 30% af kollageni fyrstu fimm árin eftir upphaf tíðahvarfa - en það er einmitt ekki óalgengt að konur upplifi að húðin slappast hraðar eftir tíðahvörf. Eftir þetta tímabil verður nettótapið um 2% á ári.
Með hækkandi aldri tapar húðin þannig styrkleika, verður slappari og myndar línur eða fellingar. Bæði verður hún lélegri að framleiða nýtt kollagen og það er brotið hraðar niður.
Hvað er til ráða?
Þá spyr maður sig - getur maður eitthvað gert til að vinna á móti þessu? Eins og fyrr sagði skiptir máli hvernig við lifum lífi okkar dags daglega. Það að sofa vel hjálpar líkamanum að endurnýja sig, að hreyfa sig reglulega er oft sagt besta yngingarmeðalið, að borða vel af grænmeti og ávöxtum sér okkur fyrir bólguhamlandi andoxunarefnum, og síðast en ekki síst að gefa okkur tíma til að slaka á - að gefa sjálfum okkur tíma og umhyggju. Flest öll verkefnin sem við erum að stressa okkur á geta beðið.
Síðan eru ýmsar húðmeðferðir sem örva kollagenmyndun. Ein mest rannsakaða meðferðin er laserlyfting sem oft er nefnd andlitslyfting án skurðaðgerðar og virkar þannig að hún gefur smiðunum aukinn kraft til að framleiða kollagen. Einnig verður kollagenaukning þar sem potað er í smiðina með nál eins og í dermapen-meðferð eða eftir stungu til dæmis þegar verið er að koma fylliefnum undir húð.
Nú vilja vísindamenn meina að litlu peptíðin sem við fáum í kollagen-fæðubótarefni gefi smiðunum meiri orku til að vinna hraðar og byggja meira kollagen en í næsta og síðasta pistlinum um kollagen ætlum við að skoða rannsóknir á kollageni og ég ætla að segja frá minni upplifun af mismunandi tegundum kollagens.