Finnst róandi að mála sig

Helga Sæunn hugsar vel um húðina áður en hún málar …
Helga Sæunn hugsar vel um húðina áður en hún málar sig.

Helga Sæunn Þorkelsdóttir förðunarfræðingur og kennari í Reykjavík Makeup School segist hafa fengið snemma áhuga á förðun. Í dag starfar hún við áhugamál sitt og hefur meðal annars farðað fyrir tímarit, tónlistarmyndbönd og tískusýningar. „Mér finnst ótrúlega gaman að vinna með alls konar fólki því allir hafa sinn persónulega stíl sem gerir mér kleift að skapa mismunandi verk þegar ég er að farða,“ sagði Helga þegar Smartland fékk að forvitnast út í það hvað leynist í snyrtibuddu Helgu. 

Hvað finnst þér vera málið í sumar þegar kemur að förðun?

„Mér finnst alltaf einkenna sumarförðun að hún er vanalega léttari og meira ljómandi. Mér finnst mjög fallegt að nota bronsliti og brúna tóna á augun og mjúka blýanta ofan í augnhárarótina til að gefa skugga. Kremvörur á húðina eru ótrúlega þægilegar á sumrin, og þá til dæmis kremkinnalitir og ljómakrem. Ég vel oft bjarta liti á kinnarnar fyrir frísklegt útlit. Fyrir hversdags sumarförðun finnst mér fallegt að vera með gloss á vörunum en fyrir ýktari liti þá finnst mér appelsínurauðir alltaf klassískir á sumrin,“ segir Helga. 

Hvernig málar þú þig dags daglega?

„Hversdagsförðunin mín byrjar á góðri húðrútínu, ég passa að þrífa hana og gefa henni mjög góðan raka. Svo nota ég yfirleitt léttan farða eða litað dagkrem yfir andlitið og nota ljómandi hyljara undir augun og á svæðin sem þarf að hylja. Síðan set ég oftast á mig sólarpúður og fallegan kinnalit. Ég nota litað augabrúnagel frá Anastasia Beverly Hills í augabrúnirnar, svo bretti ég augnhárin og set á mig maskara. Hversdags-varaliturinn minn er frá merkinu Ilia, hann er nærandi og mildur litur sem heitir Nobody’s Baby. Ég set vanalega ekki púður dagsdaglega en spreyja yfirleitt All Nighter Setting Spray frá Urban Decay yfir andlitið eftir að ég er búin að öllu.“

Helga heldur upp á setting sprey frá Urban Decay.
Helga heldur upp á setting sprey frá Urban Decay.

En þegar þú ferð eitthvað spari?

„Ég er dugleg að breyta til þegar ég fer eitthvað fínt og tek tillit til þess í hverju ég klæði mig hvers sinnis og svoleiðis. En vanalega passa ég mig að byrja á því að undirbúa húðina mjög vel eins og alltaf og skrúbba hana vel. Ef ég vil virkilega gera vel við mig þá nota ég augngelin frá Skyn Iceland til þess að taka þrota úr augnsvæðinu. Ég byrja yfirleitt alltaf á augunum þegar ég fer spari til þess að forðast það að augnskugginn detti niður á andlitið. Augnskuggagrunnur finnst mér algjört möst til þess að augnskugginn endist allt kvöldið. Ég nota yfirleitt ekki stór augnhár þessa dagana en vel frekar stök eða hálf augnhár á augun. Ég nota farðagrunn og farða sem er aðeins mattari því þeir endast lengur og nota Beauty Blender til þess að setja farðann á fyrir fallega áferð. Svo nota ég púður á svæðin þar sem farðinn endist styðst áður en ég klára andlitið með skyggingu, sólarpúðri, kinnalit og ljóma. Yfirleitt spreyja ég bæði rakaspreyi og setting spreyi yfir förðunina þegar ég fer spari. Litirnir sem ég nota á augun og varirnar eru mjög breytilegir eftir því í hverju ég er en ég er mjög mikið fyrir jarðliti og heita liti. Einnig er ég langoftast með gloss á vörunum og er ekki jafn hrifin af möttum vörum.“

Helga notar Beauty Blender til þess að setja farðann á …
Helga notar Beauty Blender til þess að setja farðann á fyrir fallega áferð.

Hvað tekur það þig langan tíma að gera þig til?

„Ég get verið mjög fljót að því ef ég þarf þess en mér finnst ótrúlega gaman að fá góðann tíma í að taka mig til þegar ég fer fínt og mér finnst það frekar róandi. Þá get ég alveg dundað mér í góðan klukkutíma við að mála mig.“

Hvenær byrjaðir þú að mála þig?

„Mig langar að segja að ég hafi byrjað að mála mig smá í 6. bekk enda vaknaði áhuginn fyrir snyrtivörum mjög snemma hjá mér. Ég verð þó að viðurkenna að ég var kannski ekki alveg jafn góð í því eins og ég er núna og var yfirleitt bara með svartan blýant inni í augunum og maskara.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Með árunum hef ég alltaf verið duglegri og duglegri að hugsa um húðina mína og hef fundið hvað hentar henni hverju sinni því hún breytist alltaf reglulega en húðin lítur best út þegar ég er dugleg að drekka vatn. Ég tek yfirleitt förðunina af með micellar-vatni og hreinsa svo húðina með Glacial Face Wash frá Skyn Iceland. Svo nota ég mikið sýrur á andlitið, og þá helst mildar sýrur eins og ávaxtasýrur. Rose Night Peel frá Lancome er í miklu uppáhaldi hjá mér og svo nota ég alltaf 2-3 í viku Nordic Skin Peel-skífurnar frá Skyn. Ég nota sjaldan maska en ef ég geri það þá nota ég oftast rakamaska eða skrúbbmaska. Svo gott rakakrem og augnkrem og það breytist reglulega hjá mér hvað það er hverju sinni.“

Helga notar reglulega Nordic Skin Peel-skífurnar frá Skyn Iceland.
Helga notar reglulega Nordic Skin Peel-skífurnar frá Skyn Iceland.

Hvað gerir þú til að dekra við þig?

„Þegar ég dekra við mig þá finnst mér gott að kveikja á góðri tónlist eða podcasti og setja á mig maska eða gelin frá Skyn Iceland. Ég lita líka augabrúnirnar mínar, skrúbba líkamann og set á mig brúnkukrem þegar mig langar að líða vel. Annars reyni ég þegar ég hef dekurtíma að gefa húðinni á líkamanum auka athygli því hún gleymist oft.“

Hvað finnst þér skipta máli að eiga í snyrtibuddunni?

„Hyljari finnst mér gera mikið og einnig góður maskari sem hentar þínum augnhárum. Fjölnota stifti sem má nota á kinnar, varir og jafnvel augu er mjög góð vara að eiga og maður getur gert mikið með þeim. Góður svartur eða brúnn blýantur finnst mér gott að hafa því það er hægt að gera mikið með þeim á augun. Svo finnst mér setting sprey vera eitthvað sem allir ættu að eiga.“

Uppáhaldssnyrtivaran?

„Úff það er ótrúlega erfitt að svara þessari spurningu af því það breytist með hverri vikunni. En akkúrat núna þá eru það True Skin hyljararnir frá Ilia. Svo verð ég að segja All Nighter Setting Spray frá Urban Decay er eitthvað sem ég þarf alltaf að eiga í kittinu mínu.“

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Eins og örugglega flestir förðunarfræðingar þá er ég með langan lista af vörum sem mig langar í en mig langar ótrúlega að eignast fleiri vörur frá Charlotte Tilbury og fleiri merkjum sem eru ekki fáanleg hérna á landi. Ef ég þyrfti að velja eina vöru þá myndi ég örugglega velja augnskuggapalletturnar frá Pat McGrath.“

Augnskuggapalletta frá Pat McGrath er á óskalistanum.
Augnskuggapalletta frá Pat McGrath er á óskalistanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda