Margir bíða spenntir eftir kvikmyndinni Once Upon a Time in Hollywood eftir Quentin Tarantino sem væntanleg er í kvikmyndahús á landinu 16. ágúst. Með tilkomu kvikmyndarinnar, sem skartar mörgum af stærstu nöfnunum í Hollywood, m.a. Brad Pitt, Margot Robbie, Leonardo DiCaprio og Al Pacino, má segja að vinsældir Sharon Tate hafi aldrei verið meiri. Kvikmyndin fjallar í stuttu máli um morðið á Sharon Tate sem Charles Manson og hans hópur myrti 9. ágúst árið 1969. Margot Robbie leikur Sharon Tate og Lenonardo DiCaprio og Brad Pitt leika nágranna hennar.
Andlát Sharon Tate snerti heimsbyggðina alla. Tate átti von á barni innan tveggja vikna frá þeim degi sem hún var myrt. Daginn sem hún dó hafði hún fengið tvær vinkonur sínar heim í hádegisverð þar sem hún ræddi líf sitt og væntingar. Tate var gift leikstjóranum Roman Polanski sem var á ferðalagi þennan dag.
Hún snæddi kvöldverð á uppáhaldsveitingahúsinu sínu, El Coyote Cafe, með vinum sínum og var komin heim til sín upp úr tíu um kvöldið. Vinir hennar voru með henni. Morðið á henni og félögum hennar átti sér stað upp úr miðnæti. Heimilishjálpin, Winifred Chapman, kom að þeim daginn eftir. Tate var stungin 16 sinnum víðs vegar um líkamann.
Móðir Sharon Tate, Doris Tate, hefur unnið ötullega í gegnum árin í að halda minningu dóttur sinnar á lífi. Debra Tate, systir Sharon Tate, sagði í viðtali við Vanity Fair að hún kynni að meta Margot Robbie í hlutverki systur sinnar. Að hún hafi verið svo sannfærandi í hlutverkinu að hún hefði viljað sjá meira af henni í kvikmyndinni.
Sharon Tate var mikil tískufyrirmynd á sínum tíma. Margir segja hana eins konar bandaríska útgáfu af Chaterine Deneuve. Áhrif hennar á tískuna hafa aldrei verið meiri en einmitt í dag, fimmtíu árum eftir fráfall hennar.
Útlit hennar þótti áhugavert fyrir margar sakir. Hárið á henni var fallega glansandi og sítt. Hún var með óaðfinnanlegar tímalausar augabrúnir, alltaf með falleg löng augnahár og lágstemmdan varalit.
Hún klæddist rúllukragabolum og útvíðum buxum eða lausum sveitakjólum. Stuttir 60´s MOD kjólar voru í hennar anda og stór sólgleraugu. Hún var frjálsleg kona sem elskaði lífið.
Eftirfarandi útlit eru í uppáhaldi á Smartlandi.