„Ég hafði sprengt upp lífið mitt; hætt í vinnunni, hætt með kærastanum og flutti aftur heim til foreldra minna. Mamma var gjörn á að spyrja hvort ég vissi hvað ég væri að setja á andlitið mitt. Ég hélt að ég væri að nota náttúrulegar snyrtivörur og því var áfall að lesa aftan á umbúðirnar. Það kom hinsvegar í ljós að mikill „grænþvottur“ hefði átt sér stað í markaðssetningu snyrtivaranna sem ég notaði og mamma hafði rétt fyrir sér. Vörurnar voru ekki eins náttúrulegar og ég hélt,“ sagði Sasha Plavsic, stofnandi ILIA Beauty, í viðtali við Forbes. Hún velti því fyrir sér hvort hún gæti hannað snyrtivörur sem bæði væru án aukaefna en virkuðu og einkenndust af gegnsæi svo neytendur vissu nákvæmlega hvað þeir væru að nota. Með tvö kreditkort og lán upp þrjár milljónir fór Plavsic að búa til varaliti í borginni sem hún ólst upp í, Vancouver í Kanada. Fyrstu vörur ILIA Beauty komu á markað í maí árið 2011 og hefur leiðin legið upp á við síðan en í dag býður merkið upp á vörur fyrir alla hluta andlitsins.
ILIA prófar engar vörur sínar á dýrum og engin innihaldsefnanna eru prófuð á dýrum neinstaðar í heiminum. Mikið af vörunum eru vegan og glútenlausar.
Ólíkt öllu öðru
Þar sem ILIA er eitt af mínum uppáhaldssnyrtivörumerkjum fannst mér tilvalið að fjalla nánar um merkið og kynni mín af því. Ég kynntist ILIA fyrir um fimm árum síðan þegar Karin Kristjana Hindborg stofnaði snyrtivöruverslunina Nola. Báðar áttum við það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á góðum snyrtivörum svo það var mjög skemmtilegt að hitta hana yfir kaffibolla þar sem hún sýndi mér þau merki sem hún hafði valið til að selja í verslun sinni til að byrja með. Það fyrsta sem heillaði mig við ILIA voru umbúðirnar. Þær eru flestar gerðar úr endurunnu áli, sumar úr gleri og kassarnir gerðir úr endurunnum pappír. Þetta var gjörólíkt öllu öðru sem ég hafði séð frá náttúrulegum snyrtivörumerkjum en áður einkenndust slík merki af takmörkuðu litaúrvali og komu í umbúðum sem ég var lítið spennt fyrir að hafa á snyrtihillunni minni. Þarna var komið lúxusmerki í náttúrulega snyrtivöruheiminum sem hægt var að stilla upp með fallegum merkjum á borð við Chanel, Bobbi Brown og YSL.
Blanda af náttúrulegum og tilbúnum innihaldsefnum
Formúlur ILIA búa að mestu yfir lífrænum innihaldsefnum í bland við örugg tilbúin innihaldsefni. „Ekki eru öll náttúruleg innihaldsefni góð fyrir húðina né eru öll tilbúin efni slæm. Til að hanna snyrtivöru sem virkar þarf að finna jafnvægi þarna á milli,” segir á vefsíðu ILIA. Þarna er einmitt lykillinn að gífurlegri velgengni ILIA, þetta fullkomna jafnvægi á milli náttúrulegra og tilbúinna innihaldsefna. Formúlurnar færa neytandanum það besta úr báðum heimum.
Þorði ekki að nota neitt
Þetta kom sér vel fyrir þremur árum þegar ég fór að upplifa mikinn kvíða og fælni gagnvart snyrti- og húðvörum eftir að hafa lesið talsvert af greinum og rannsóknum um innihaldsefni þeirra. Það er hægt að finna allt á Google, greinar sem segja okkur að tiltekin efni séu slæm og aðrar greinar sem segja að sama efni sé gott. Ég var því komin í hringi með lestur minn og því var blandað við streitumikið starfsumhverfi. Allt í einu var ég orðin smeyk við að setja eina einustu vöru á andlitið mitt. Ég ákvað að nota eingöngu þær hreinustu snyrtivörur sem völ var á en þær einfaldlega virkuðu hvorki né entust á húðinni. Á þessum tíma styrktist ástarsamband mitt við ILIA því það var eina merkið á markaðnum, að mínu mati, sem virkaði og ég þorði að nota. Einnig veitti það mér ákveðna lúxustilfinningu sem engu öðru náttúrulegu snyrtivörumerki hafði tekist áður. Í dag hef ég komist yfir þessa fælni mína og nota flest hágæða snyrtivörumerki en ávallt eru vörurnar frá ILIA ofarlega á lista.
Vörurnar sem ég nota frá ILIA
1. ILIA True Skin Radiant Priming Serum
Fyrir mína daglegu förðun byrja ég á að nota argan-olíu frá Josie Maran og svo ber ég nokkra dropa af ILIA True Skin Radiant Priming Serum yfir andlitið. Ég á erfitt með flesta farðagrunna (e. primer) því þeir innihalda gjarnan svo mikið af sílikonefnum að ég næ því varla af húðinni. Þessi farðagrunnur er sílikonlaus en tekst að draga saman svitaholur og slétta húðina.
2. ILIA Liquid Light Serum Highlighter í litnum Nova
Næst set ég nýju uppáhaldssnyrtivöruna mína á hæstu punkta andlitsins. Liquid Light er einstakur ljómi í fljótandi formi sem einnig er nærandi og rakagefandi. Ef ég er sérlega þreytuleg set ég einnig dass af þessu í andlitsolíuna mína og set yfir allt andlitið. Þegar ég frétti að Liquid Light i litnum Nova væri að seljast upp hjá Nola hljóp ég til að keypti síðustu tvær flöskurnar. Þetta segir ykkur hversu mikið ég nota og elska þessa vöru.
3. ILIA True Skin Serum Foundation
Farði sem veitir létta- til miðlungsþekju og kemur í fjölmörgum litatónum. Formúlan inniheldur m.a. aloe vera ásamt rosehip-, jojoba- og marula-olíu sem sefa húðina, draga úr roða og slétta fínar línur.
4. ILIA True Skin Serum Concealer
Þetta er einn allra besti hyljari sem ég hef notað. Formúlan er auðguð með C-vítamíni og vinnur einnig gegn þrota á augnsvæðinu. Oftar en ekki sleppi ég farðanum og ber þennan hyljara á miðju andlitsins og blanda hann út yfir allt andlitið. Þannig fæ ég ferskt útlit og hyl roða húðarinnar.
5. ILIA Color Haze Multi-Matte Pigment
Color Haze nota ég sem kinnalit en þetta er mattur litur í kremformi og kemur í fimm litum. Einnig má nota formúluna sem varalit og þetta er tilvalin vara að nota þegar maður vill hafa varalitinn og kinnalitinn í stíl.
6. ILIA Soft Focus Finishing Powder
Þetta lausa púður er frábært yfir þau svæði sem geta orðið olíukennd. Nota þetta því yfir miðju andlitsins og þá helst húðin mött nánast allan daginn.
7. ILIA Limitless Mascara
Þessi maskari gerði allt vitlaust á heimsvísu því loksins kom maskari úr náttúrulegum innihaldsefnum sem gerði eitthvað fyrir augnhárin. Ekki bara eitthvað heldur var eins og ég væri með gerviaugnhár þegar ég notaði hann. Viðkvæm augu virðast einnig þola þennan maskara betur en aðra.
8. ILIA Tinted Lip Conditioner
Það má alltaf finna varasalvann og litaða varasalvann frá ILIA í veskinu mínu. Þær vinkonur mínar sem hafa prófað þessa formúlu verða samstundis háðar henni en þetta er einmitt formúlan sem ILIA byggir velgengni sína á. Þetta er besti varasalvi sem ég hef notað og unninn úr náttúrulegum innihaldsefnum.
Kælandi töfrastifti
Það er ekki hægt að skrifa um ILIA án þess að minnast á húðvöru frá þeim sem nefnist Cucumber Water Stick. Þetta er mjög kælandi og rakagefandi stifti sem byggir á gúrku-extrakti. Það dregur úr þrota og bólgum á andlitinu og dregur úr rósroðanum mínum. Þess skal þó geta að stiftið er mjög kælandi og frískandi en það mætti vera aðeins meira rakagefandi svo ég ber rakaserum eða rakakrem yfir.
Undanfarið hefur ILIA svo sannarlega fengið gífurlega athygli á heimsvísu fyrir einstaka vöruþróun sína og uppgötvun á heilnæmum innihaldsefnum sem koma í stað sílikona og óæskilegra fylli- og rotvarnarefna. Merkið er orðið það söluhæsta af náttúrulegum snyrtivörum í Sephora og ég vona að lesendur okkar muni sömuleiðis leggja leið sína í Nola og kolfalla fyrir ILIA líkt og ég gerði fyrir fimm árum síðan.
Fylgstu með á bak við tjöldin:
Instagram: @snyrtipenninn