Coco Mitchell, sem var ein af fyrstu svörtu fyrirsætunum í heiminum, sneri aftur á tískupallana nú í mánuðinum eftir 10 ára hlé.
Mitchell, sem komin er yfir sextugt, gekk á tískupallinum á tískuvikunni í New York í síðustu viku.
„Ég vil að fólk muni eftir mér þegar ég er farin af sviðinu. Að ganga án þess að sýna nokkur svipbrigði er ekki ég. Þú ert með ranga stelpu,“ sagði Mitchell í viðtali við AFP-fréttastofuna.
Mitchell vill ekki gefa upp nákvæman aldur sinn en segist vera komin yfir sextugt. Hún hóf fyrirsætuferil sinn fyrir yfir 35 árum og hefur setið fyrir hjá Dior, Saint Laurent, Armani og Versace.
„Ég er þakklát fyrir að vera hér, ekki aldurs míns vegna. Ég var það líka áður,“ segir Mitchell.
Upp úr aldamótum ákvað Mitchell að leggja fyrirsætuframann á hilluna. „Ég ákvað að ég vildi ekki gera það lengur. Mér leið eins og þræli.“
Mitchell ákvað að vinna með ungum hönnuðum í ár. Þeir samræmast nálgun hennar á tískupallana, en Mitchell þykir einstaklega skemmtileg fyrirsæta. Hún brosir til áhorfenda og ljósmyndara og stríðir stundum áhorfendum með danssporum.
Hún er enginn nýgræðingur í fyrirsætubransanum. Hún var fyrsta svarta fyrirsætan til að sitja fyrir hjá Sports Illustrated og ein af þeim fyrstu til að ganga á tískupöllum og ferðast um allan heim til að ganga tískupallana.
Óvænt endurkoma Mitchell færði henni svo mikla gleði að hún er farin að íhuga að gera þetta aftur að ári. „Ég byrjaði snemma, alveg 23 eða 24 ára. Enginn vissi alveg hvað ég væri gömul svo ég hugsa aldrei um aldur,“ segir Mitchell.
„Þegar ég verð 99 ára vil ég að lífsgæði mín séu eins og þau eru núna. Ég vil geta gengið, hlaupið með heilann í sambandi, það er markmiðið mitt.“