Það verður að teljast frumlegt hjá starfsfólki Yves Saint Laurent á Íslandi að bjóða í veislu í Sundhöllinni til að kynna nýtt ilmvatn. Eflaust voru ekki allir boðsgestir vissir í hverju ætti að mæta en sumir hugsuðu eflaust um að mæta í sundbol undir kjólnum eða jafnvel í blautbúningi. Veislugestir héldust þó flestir þurrir og mættu í sínu fínasta pússi til að kynna sér nýjasta ilmvatnið frá Yves Saint Laurent sem nefnist Libre.
Fyrir framan inngang Sundhallarinnar var rauður dregill og kertaljós í klettunum og tekið var vel á móti gestum. Þegar inn var komið gengu gestir til hægri, í karlaklefann, þar sem voru bakkar með jarðarberjum og ilmvatnið sjálft var frumsýnt. Breska söngkonan Dua Lipa er andlit ilmvatnsins og því myndir af henni áberandi.
Í sturtuklefanum var búið að raða upp glæsilegum veitingum í föstu og fljótandi formi en það var skemmtileg upplifun fyrir gesti að snæða í rými sem almennt er notað undir allt annað. Þaðan var gengið til sundlaugarinnar og var stemningin góð, falleg lýsing og sjálfur stökkpallurinn var notaður sem svið fyrir ræðuhöld. Söngkonan Elín Sif tók þrjú lög af væntanlegri plötu.
Yves Saint Laurent Libre Eau de Parfum er glænýtt ilmvatn frá franska tískuhúsinu og flokkast sem austurlenskur ilmur. Lofnar- og appelsínublóm blandast djörfum moskus í þessu ilmvatni sem tískuhúsið segir vera fyrir þá sem lifa eftir eigin reglum. Libre þýðir einmitt frelsi á frönsku. Ilmvatnsflaskan er sérlega glæsileg og tímalaus en gyllt YSL-lógóið er vafið um hana. Libre frá Yves Saint Laurent mun sóma sér vel á öllum snyrtiborðum.