Regína Rourke hefur verið búsett í New York síðastliðin 10 ár. Þar starfar hún sem listrænn stjórnandi hjá Calvin Klein. Regína hefur stýrt auglýsingum með nokkrum af helstu stjörnum heims eins og Justin Bieber, Kendrick Lamar og Kendall Jenner. Í dag býr hún í Williamsburg í Brooklyn ásamt Charlie Rose sem er golden retriever.
Hún undirbýr nú myndlistasýningu sem opnar í Norr11 á Hverfisgötu á laugardag, 21. desember.
Regína starfar við framleiðslu auglýsinga fyrir Calvin Klein og sér um ljósmyndatökur og sjónvarpsefni.
„Fyrir tökur vinn ég aðallega í hugmynda - og útlitsvinnu. Þegar við erum búin að gera upp við okkur hvernig hlutirnir eiga að vera og líta út, vinn ég með öðrum teymum hjá Calvin Klein við að velja hvaða stjörnum við viljum vinna með, í hvaða borg eða landi og þar fram eftir götunum. Á setti þykir mér skemmtilegast að vinna með leikstjórum við að taka upp sjónvarpsauglýsingar. Nýlega lauk ég við tökur þar sem ég vann með leikstjóra sem hefur leikstýrt True Dectective þætti. Það var mikil og góð reynsla fyrir mig. Það er frekar nýtt fyrir mig að fá að vinna náið með stærri leikstjórum. Það er heimur sem ég hef mikinn áhuga á. Svo tekur við eftirvinnsla. Þá þarf maður að taka allt efnið og vinna úr hvernig það kemur út á öllum snertiflötum; í búðunum, á auglýsingaskiltum, samfélagsmiðlunum og hvar sem auglýsingin kemur til með að birtast.“
Er samkeppnin mikil úti?
„Já það er klárlega mikil samkeppni en ekkert sem truflar mann eða stoppar. Ég held það sé búið að hjálpa mér mikið að komast áfram að vera íslensk, því að ég er sérstök í samskiptum. Segi hlutina yfirleitt í stuttu máli. Alla vega færri orðum en allir þeir sem ég vinn með. Fólk misskilur mig. Trúir því að það sem ég meina sé eitthvað dýpra en ég hef í huga í raun og veru. Dálítið eins og í bíómyndinni „Being There“ með Peter Sellers. Það hefur virkað frekar vel.“
Er þetta ekki skemmtilegur iðnaður að vinna í?
„Vissulega. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt. Mér þykir gaman að ferðast og er heppin að fá að gera mikið af því í mínu starfi.“
Hvað getur þú sagt mér um myndlistina og þau verkefni sem þú gerir samhliða atvinnu þinni?
„Myndirnar sem ég geri eru blanda af mörgu. Úrklippur af Mickey Rourke, málaðir hestar á hvolfi og fleiri fallegir hlutir sem ég veit ekki af hverju ég hef áhuga á.“
Er öðruvísi nálgun í þeim verkefnum en þínum daglegu?
„Já ég myndi segja það.“
Hvernig kanntu við þig í New York?
„Mjög vel. Hér á ég heima, þó ég sakni Íslands oft og ákveði stundum þegar er ógeðslega mikið að gera í vinnunni að flytja heim og gerast myndlistarmaður með stúdíó úti á Granda eða taka við fjölskyldufyrirtækinu sem er að reka gistiheimili í miðbænum. En ég er enn þá hér.“
Hvað kom þér helst á óvart þegar þú fluttir út?
„Ekkert sem mér dettur í hug. Því ég vissi ekki við hverju ég átti að búast. Ég kýldi bara dálítið á þetta, eignaðist ótrúlega góða vini og nú er þetta heimilið mitt og það sem ég er vön.“
Hverju þakkarðu velgengni þína?
„Vinnusemi og keppnisskapi.“
Hvað vonarðu að framtíðin beri í skauti sér?
„Meiri myndlist og kannski aðeins fleiri skíðaferðir.“
Hvað getur þú sagt mér um sýninguna í Norr11?
„Sýningin opnar klukkan 17:00 í Norr11 laugardaginn 21. desember. Högni Egils ætlar syngja og Dóri DNA ætlar að tala. Þeir eru svo skemmtilegir að þetta verður að minnsta kosti ekki mjög leiðinlegt.“