Tískusýningar undirfataframleiðandans Victoria's Secret voru afar vinsælar á árunum 1995 til 2018. Í fyrra fór tískusýningin ekki fram en á þeim rúmlega 20 árum sem þær fóru fram og var sjónvarpað minnkaði ummál þeirra fyrirsæta sem tóku þátt að því er fram kemur í rannsókn sem Daily Mail greinir frá.
Í rannsókn The Boston University er nærfatamerkið sagt ýta undir óeðlilega fegurðarímynd sem er langt frá raunveruleikanum. Á meðan ummál bandarískra kvenna jókst minnkaði ummál fyrirsæta Victoria's Secret.
Vísindamennirnir báru saman brjósta-, mjaðma- og mittisummál. Þeir tóku einnig saman hárlit, hæð, fatastærð, kynþátt og aldur. Í ljós kom að ummálin hafa minnkað sem og fatastærðir fyrirsætanna.
Meðalbrjóstaummál fyrirsæta Victoria's Secret á árunum 1995 til 1998 var 83,5 sentimetrar en á árunum 2015 til 2018 var það 82,3 sentimetrar. Mittisummál fyrirsæta Victora's Secret á árunum 1995 til 1998 var 62,7 sentimetrar en á árunum 2015 til 2018 var það 59,9 sentimetrar. Mjaðmaummál fyrirsæta fór sömuleiðis úr 88,6 sentimetrum niður í 87,4 sentimetra.
Meðalaldur fyrirsæta hjá Victoria's Secret lækkaði einnig. Á upphafsárum tískusýningana var meðalaldurinn 23,4 ár en á síðustu árunum var hann 22 ár.