Í dag mun Bioeffect opna sína fyrstu sérverslun á Íslandi í samstarfi við danska aðila sem hafa mikla þekkingu á smávöruverslun í Danmörku, Finnlandi og á Íslandi.
„Undanfarin ár höfum við lagt mikla vinnu í að efla ásýnd og styrk Bioeffect-vörumerkisins, bæði hér innanlands og erlendis. Það að tryggja rétta framsetningu á vörunum okkar og þar með betri upplifun fyrir viðskiptavini hefur verið einn af hornsteinum þessarar vegferðar. Við höfum til að mynda fækkað útsölustöðum hér á landi en lagt þeim mun meiri kraft í að tryggja gæði þeirra sem eftir standa á sem flestan máta. Það hefur lengi verið draumur okkar að opna Bioeffect-verslun og nú hefur sá draumur ræst. Það má segja að þetta sé rökrétt framhald af áðurnefndri vegferð, enda getum við gengið enn lengra í að tryggja rétta framsetningu og upplifun í okkar eigin búð. Búðin endurspeglar frábærlega það vörumerki sem við erum að byggja upp og er vonandi sú fyrsta af mörgum ef horft er lengra inn í framtíðina og út fyrir landsteinana,“ segir dr. Björn Örvar, einn stofnenda ORF líftækni og vísindamaðurinn á bak við húðvörumerkið.
Verslunin er staðsett í Hafnarstræti 19 í húsi sem var byggt árið 1925 og hýsti áður Rammagerðina. Húsið var nýlega gert upp í sinni upprunalegu mynd og er í dag bogalagað í austurátt og minnir óneitanlega á „straujárnið“ fræga í New York. Arkitektastofan Basalt var fengin til að hanna verslunina og notaði hún til dæmis ylplast í innréttingar og lýsingu sem er sama efni og notað er í gróðurhús. Er það vísun til gróðurhúss ORF líftækni í Grindavík þar sem byggið er ræktað sem notað er í vörur Bioeffect.
„Bioeffect er selt um allan heim í samstarfi við aðra smásöluaðila en þetta verður fyrsta sérverslun okkar. Það hefur verið mikill vöxtur síðustu ár og er það mikill kostur að geta boðið okkar viðskiptavinum, erlendum og innlendum, upp á sérverslun þar sem okkar sérfræðingar útskýra vörurnar, en í versluninni verður hægt að fá húðmælingu og almenn ráð varðandi umhirðu húðarinnar auk þess að versla alla vörulínu Bioeffect,“ segir Elísabet Austmann, framkvæmdastjóri markaðssviðs ORF líftækni.
Í línu fyrirtækisins eru 13 ólíkar vörur sem skipta má í þrjá flokka: undirstaða, uppbygging og umhirða húðarinnar. Undirstöðuvörurnar eru hannaðar fyrir daglega húðumhirðu til notkunar á hverjum degi og uppbyggingarvörurnar eru hins vegar ætlaðar til að taka húðina í gegn nokkrum sinnum á ári.