Húðumhirða sambærileg því að tannbursta

Aldís Amah Hamilton leikkona notar náttúrulegar snyrtivörur.
Aldís Amah Hamilton leikkona notar náttúrulegar snyrtivörur. Ljósmynd/Saga Sig

Leikkonan Aldís Amah Hamilton velur náttúrulegar snyrtivörur frá fyrirtækjum sem prófa ekki vörur sínar á dýrum. Hún hugsar vel um húðina og málar sig lítið hversdagslega. Við fínni tilefni er hún óhrædd við að brjóta reglur og setja á sig áberandi varalit við dökka augnskyggingu.

Þar sem ég er yfirleitt ómáluð (líka fyrir Covid-19) reyni ég aðallega að halda húðinni snyrtilegri. Ég þríf hana kvölds og morgna, mér finnst það sambærilegt við að bursta tennurnar. Ég nota nær einungis náttúrulegar vörur sem næra hana vel,“ segir Aldís þegar hún er spurð hvernig hún hugsi um útlitið.

„Húðin á mér er mjög þurr og þarf því krem sem minnir á steikingarfeiti í þykkt. Þegar ég var yngri smurði ég einu sinni vaselíni yfir allt andlitið á mér. Það voru mistök. En Dr. Hauschka-vörurnar hafa reynst mér ótrúlega vel. Rose Day-kremið er í miklu uppáhaldi. En ekki létta útgáfan. Ég þarf þykka kremið. Þessa dagana kemur Refine-maskinn líka sterkur inn með auknum áhyggjuhrukkum á þessum síðustu og verstu.“

Aldís notar krem frá Dr. Hauschka.
Aldís notar krem frá Dr. Hauschka. Ljósmynd/ Dr. Hauschka

Margt hefur breyst síðan Aldís fékk sína fyrstu förðunarpallettu 12 ára gömul. Pallettan var fyrir augu, kinnar og varir, allt í einu boxi. „Mikið glimmer. Það var ekki lekkert. En það var upphaf. Ég reis að lokum úr glimmeröskunni,“ segir Aldís, sem málar sig lítið dags daglega í dag.

„Ég kannski bretti upp augnhárin og hyl rauða bletti ef ég er slæm í húðinni og lítil í mér. Ef ég á aukamínútu fylli ég aðeins í augabrúnirnar en oft er það jafnvel of mikið. En hversdagsleg förðun væri léttur grunnur og maskari. Ég hef verið að nota Glow Eyelash Serum síðustu vikur og er hæstánægð með árangurinn. Það er því extra skemmtilegt að nota maskara þessa dagana. Svona „hver er þetta?“-upplifun þar sem ég hef aldrei haft mjög löng augnhár,“ segir Aldís.

„Tyllidagaförðun er allt annað. Þá sest ég með góðan bolla af tei eða vínglas fyrir framan spegilinn og tek allt í gegn. Ég syrgi mjög lokun Make Up Store hérlendis þar sem farðinn frá þeim er bestur þá sjaldan ég vil gott „coverage“. Yfirleitt enda ég svo með dökka skyggingu á augunum. Ég var oft með gerviaugnhár en þarf þess varla þessa dagana, grínlaust þetta Glow Serum er hverrar krónu virði. Stundum para ég dökku augun með áberandi varalit sem er víst „förðunarbrot“ en mér er sama. Allt er í boði og lífið er stutt.“

Aldís er órhædd við að nota áberandi varalit með dökkri …
Aldís er órhædd við að nota áberandi varalit með dökkri augnskyggingu. mbl.is/Colourbox

Vegna þess hversu lítið Aldís málar sig hversdags tekur það hana ekki nema þrjár mínútur að gera sig til fyrir kvöldmat í heimahúsi. Þegar um kvöldmat á almannafæri er að ræða og þá sérstaklega ef hún ætlar út á lífið í kjölfarið er sagan allt önnur. Hún segir það taka sig allt að tvo tíma að gera sig til.

Aldís notar meðal annars hreinsifroðu frá íslenska merkinu Sóley Organics.
Aldís notar meðal annars hreinsifroðu frá íslenska merkinu Sóley Organics. Ljósmynd/Sóley Organics

Hvernig hugsarðu um húðina?

„Ég passa mikið hvað ég set á hana. Ég skoða innihaldslýsingar vel á öllu sem ég kaupi og vil hafa vörur mjög náttúrulegar. Ef það er ilmvatnslykt af þeim enda þær ekki framan í mér. Það kemur heldur ekki til greina að kaupa vörur sem eru prófaðar á dýrum og helst vil ég hafa þær vegan. Ég fer ekki að sofa með málningu framan í mér og á kvöldin nota ég hreinsifroðu og skrúbb frá Sóleyju eða hreinsimjólk og „toner“ frá Dr. Hauschka. Svo nota ég krem frá öðru hverju merki.“

Hvað gerir þú til að dekra við þig?

„Ég sótthreinsiþríf alla íbúðina og set ilmandi lök á rúmið, ilmkjarnaolíur með þvottaefninu eru tær snilld. Þegar verkinu er lokið sótthreinsiþríf ég sjálfa mig með rjúkandi heitu baði. Skrúbba mig og nota hreinsimaska á andlitið. Eftir baðið nota ég nærandi maska á meðan húðin er enn heit og leyfi honum stundum að vera á yfir nótt. Að leggjast upp í rúm tandurhrein og vel nærð á líkama og sál er mitt dekur. Það er eiginlega blætið mitt að þrífa. Má jafnvel kalla það áhugamál.“

Aldís blandar ilmkjarnaolíum við þvottaefnið þegar hún þvær rúmfötin.
Aldís blandar ilmkjarnaolíum við þvottaefnið þegar hún þvær rúmfötin. mbl.is/Colourbox

Förðunarvörur eru ekki það sem skiptir mestu máli í snyrtibuddu Aldísar.

„Ég gæti lifað án förðunarvara, en ég gæti ég ekki lifað án plokkara. Þar dreg ég mörkin. Og hann þarf að vera góður. Tweezerman veit hvað hann syngur.“

Aldís treystir á plokkara frá Tweezerman.
Aldís treystir á plokkara frá Tweezerman. Ljósmynd/Tweezerman

Uppáhaldssnyrtivaran?

„Þessa dagana er það maskarinn frá Dr. Hauschka. Ég er óþolandi ef einhver minnist á maskara þessa dagana. Ég fékk hann gefins en hann er í alvöru svo góður. Hann helst á allan daginn, lekur ekki og það er auðvelt að nota hann. Ég vil ekki vatnshelda maskara og hann helst samt fullkomlega á, svo lengi sem það er ekki úrhelli. Svo er ekkert mál að skola hann af með vatni. Það er mikilvægt. Ég vil ekki þurfa að nudda af mér augun. Jafnvel þótt það sé bara einu sinni í mánuði.“

Það er ekki nein sérstök snyrtivara á óskalista Aldísar fyrir sumarið. Að hennar mati mætti fólk vera duglegra að klára þær vörur sem það á fyrir í snyrtibuddunni.

„Ég á allt sem ég vil. Í hreinskilni sagt finnst mér svolítið galið hvað fólk kaupir mikið af snyrtivörum án þess að klára það sem það á nú þegar. Það fer sérstaklega fyrir brjóstið á mér þegar vörurnar koma frá fyrirtækjum sem leyfa tilraunir á dýrum. Mér þykir erfitt að réttlæta þjáningu dýra og manna svo að ég eða aðrir líti vel út. Ég vona að fólk nýti þessa félagslegu einangrun til að skoða allt sem það hefur og reyni að vera nægjusamt og ánægt með það sem það á. Sérstaklega hvað viðkemur útliti og förðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda