Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fer sínar eigin leiðir í leik og starfi og það sama má segja um fatastíl hans. Kári segir það sem honum finnst þegar honum hentar og klæðir sig á sama hátt. Smartland skoðaði fatastíl Kára en ljóst er að hann fer ekki eftir óskrifuðum reglum um klæðnað þegar hann klæðir sig.
Á miðvikudaginn mætti Kári í frægt sjónvarpsviðtal í gallaskyrtu frá Levi's. Á fimmtudaginn mætti Kári á fund í Íslenskri erfðagreiningu í gallajakka yfir sams konar skyrtu. Sumum þótti þetta djörf samsetning en það er ekki fyrir alla að klæðast gallaefni við gallaefni eða „denim on denim“ eins og það er kallað. Kári var í þriðju gallaefnisflíkinni við en hann var í svörtum gallabuxum. Svartar gallabuxur virðast reyndar vera í miklu uppáhaldi hjá Kára.
Kári er kominn yfir sjötugt en er ekki óvanur að klæða sig eins og unglingur. Hann hefur meðal annars sést á hátíðarfrumsýningu í Þjóðleikhúsinu í hettupeysu á meðan aðrir gestir kunnu ekki við annað en að mæta í jakkafötum og jólakjólum.
Þegar myndir af Kára í myndasafni Morgunblaðsins eru skoðaðar kemur í ljós að Kári klæðist stundum jakkafötum eða jakka og svörtum gallabuxum við. Hann er oftast í bol innanundir jakka og þá helst svörtum.
Bindi er eitthvað sem Kári er afar sjaldan með.
Það þarf að leita mörg ár aftur í tímann til að finna Kára með bindi á mynd í myndasafni Morgunblaðsins.
Það er langt síðan Kári byrjaði að vinna með að klæða sig í svartan bol undir fínan jakkafatajakka.