Katrín hertogaynja af Cambridge þykir ein best klædda kona veraldar. Í miðjum heimsfaraldri þurfa allir að taka upp breyttar venjur og þurfa áhrifavaldar nútímans, líkt og hertogaynjan, að vera góðar fyrirmyndir. Ekki er hægt að kvarta yfir því að hún hagi sér eins og vitleysingur.
Hún hefur verið á ferð og flugi upp á síðkastið og þegar hún heimsótti góðgerðarsamtökin Baby Basics í Sheffiled var hún með skrautlega grímu í andlitinu. Gríman kemur frá merkinu Amina Kids sem er barnamerki. Þetta er í fyrsta skipti sem hertogaynjan sést með grímu á andlitinu. Þótt Amina Kids sérhæfi sig í barnafötum hefur merkið sett á markað grímur fyrir fullorðna.
Hertogaynjan fær hrós í bresku pressunni fyrir að hafa farðað sig rétt enda hefði verið hræðilegt ef hún hefði verið með bananaskyggingu, stimplaðar kolsvartar augabrúnir og skærbleikan kinnalit við þetta tækifæri. Í stað bananaskyggingar var hún með léttan perlulitaðan augnskugga, hæfilega mótaðar brúnar augabrúnir með örlitlum lit og með maskara. Á andlitnu var svo léttur farði sem tónaði vel við allt hitt.
Við grímuna var hún í ljósum aðsniðnum kjól með stríðsáralegu sniði sem náði niður á miðja kálfa. Kjóllinn er með svörtum tölum að framan og frekar penu belti. Örlítið púff er á ermum kjólsins sem eru stuttar. Við kjólinn var hún í látlausum skóm með látlausum hæl.
Ef þú vilt vera eins og hertogaynjan getur þú fest kaup á grímu HÉR.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.