Hollywoodstjörnurnar George Clooney, Will Smith og Pierce Brosnan kunn vel að meta Ísland og íslenska hönnun. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa allir verið myndaðir í jakkanum Öxi frá 66° Norður.
Undanfarin ár hafa mörg stór kvikmyndaverkefni verið tekin upp hér á landi. Má þar nefna Game of Thrones og nú nýlega netflixmyndirnar The Story of Fire Saga sem Brosnan lék í og Aether sem George Clooney leikstýrir. Einnig vakti verkefni á vegum Wills Smiths mikla athygli í sumar.
Að mynda í krefjandi íslensku veðurfari getur reynt á og augljóst að margar þeirra stjarna sem hingað hafa komið hafa kynnst íslenskum útivistarfatnaði við tökur. Mörg af stóru kvikmyndafyrirtækjunum hafa keypt sérmerktan 66°Norður-fatnað á tökuliðin. Framleiðslufyrirtækið á bak við Game of Thrones keypti jakka á alla leikara og framleiðsluteymi þáttanna.
Leikararnir Will Smith, George Clooney og Pierce Brosnan fengu einnig fatnað þegar þeir komu til landsins. Jakkinn Öxi virðist vera í miklu uppáhaldi hjá þeim og hafa þeir ekki bara notað jakkann á Íslandi.
Will Smith notaði Öxi undir skel og birti mynd af sér í jakkanum á Íslandi á instagramsíðu sinni í byrjun september.
Aðdáandi Bond-stjörnunnar Pierce Brosnans birti mynd af leikaranum í Öxinni fyrir tæpu ári. Jakkann notaði Brosnan töluvert á ferðalagi sínu um Ítalíu.
George Clooney var myndaður í jakkanum við tökur á myndinni The Midnight Sky í upptökuveri erlendis. Myndin birtist í myndasyrpu Vanity Fair á Instagram.