Díana prinsessa var þekkt fyrir að vera með bláan augnblýant sem þótti ekki við hæfi fyrir verðandi drottningu. Förðunarfræðingurinn Mary Greenwell hvatti Díönu til að tóna niður litagleðina en segir Díönu hafa lagt mikla áherslu á augun í förðun sinni.
Litrík förðun var í tísku þegar Díana og Karl giftu sig árið 1981.
„Á níunda áratugnum voru margir með bláan augnblýant og hún var svo ung! Hún komst upp með það sem hún vildi,“ sagði Greenwall í nýlegu viðtali á vef Vogue. „Hún prófaði sig áfram og elskaði förðun en þegar hún fór á rauða dregilinn reyndum við bara að gera hana eins flotta og fallega og hægt var.“
Þrátt fyrir að ekki séu allir sammála um hvort blár augnskuggi hæfi kóngafólki er liturinn í tísku í dag eins og nánast allt annað.
„Núna snýst allt um að gera það sem þú vilt,“ sagði Greenwall. „Það er nákvæmlega það sem Díana gerði alltaf. Hennar ráð var að halda andlitinu lifandi og fersku til að komast upp með þykkan augnblýant í hvaða lit sem er.“
Förðunarfræðingur Díönu mælir með einfaldri förðun og ef blár augnblýantur verður fyrir valinu sé um að gera að gera ekki mikið úr öðru. Til þess að draga fram fallegu bláu augun notaði Díana líka mikinn maskara.