Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu varðandi ör eftir unglingabólur og hvað sé til ráða til að lagfæra húðina.
Hæ.
Ég er með slæm ör í húðinni eftir unglingabólur, sérstaklega á kinnum. Hefur ekkert truflað mig mikið en svo allt í einu eru þau farin að fara í taugarnar á mér og ég var að velta því fyrir mér hvað ég geti gert. Hvaða meðferðir eru bestar við svona örum?
Kveðja,
BB
Komdu sæl.
Þrymlabólur (acne vulgaris) og innfallin ör vegna þeirra eru einn af algengustu húðsjúkdómunum sem við húðlæknar meðhöndlum. Það er mikilvægt að hafa í huga að ör eftir bólur eru mjög mismunandi og þar af leiðandi alls ekki ein meðferð sem hentar öllum. Oftast eru þau innfallin í húðina og sjást betur í vissri lýsingu sem skuggar í húðinni, en stundum geta þau verið útistandandi. Í meginatriðum ganga allar meðferðirnar út á það að minnka sýnileika þeirra og til þess notum við medical peel, lasera, örnálarmeðferð (Dermapen) eða jafnvel skurðaðgerðir og fylliefni eftir því hve djúp þau eru.
Því fyrr sem meðhöndlunin byrjar því betri verður árangurinn en það er alltaf hægt að minnka sýnileika allra öra. Flestir ná um 70-80% bata eftir meðferðirnar. Hvaða meðferð hentar fer eftir útliti öranna, aldri þeirra og húðgerð þinni. Hér dugar yfirleitt aldrei nein ein meðferð og besti árangurinn næst með því að nota margar ólíkar meðferðir saman. Hvert meðferðarplan getur tekið frá 2 til 14 mánaða, en lengd meðferðarinnar fer eftir gerð og alvarleika öranna ásamt húðgerðinni.
Innföllnum örum eftir þrymlabólur (acne scars) er í megindráttum skipt niður í nokkrar gerðir eftir útliti og dýpt, eða; rúllandi (rolling) ör, kassalaga (boxcar) ör og ísnála- (ice-prick) ör. Flestir hafa margar gerðir af örum í einu og þá þarf að beita ólíkum meðferðartegundum til að ná góðum árangri þar sem örin liggja misdjúpt í húðinni. Yfirleitt nær meðferðarplanið yfir 6-12 mánuði.
Ef örin eru væg eða lítið sýnileg þá geta nokkur meðferðarskipti með medical peel verið nægjanlegt. Medical peel er mjög góð meðferð við ysta lagi húðarinnar og bætir því einnig við árangurinn eftir djúpa picolaserinn sem tekur örin í dýpri lögum húðarinnar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að medical peel með sterkum AHA-sýrum virkar betur á ör eftir þrymlabólur en örnálarmeðferð (Dermapen).
Fractionell laser eða picolaser eins og við notum virkar þannig að lasergeislinn sem er beint að húðinni dreifist þannig að hann gerir mörg lítil göt í aðeins örlítinn hluta húðarinnar (fraction of the skin) og skilur eftir heila húð á milli gatanna. Hve djúpt hann fer og með hve miklum krafti stillum við fyrir hverja meðferð, en það fer eftir gerð öranna og húðgerð viðkomandi einstaklings. Árangurinn getur komið í ljós eftir einungis nokkrar vikur en hámarksárangri er oft ekki náð fyrr en eftir hálft ár þar sem bandvefurinn sem örvast getur verið mjög lengi að taka við sér.
Þegar örin eru mjög djúp þarf stundum að skera þau í burtu. Einnig er algengt að við húðlæknar notum tækni sem kallast „subcision“ ef örin eru föst við undirlagið og renna saman í stórt svæði. Þá er svæðið staðdeyft og farið með óbeittri nál undir húðina og örvefurinn losaður. Með þessari aðferð næst enn betri árangur með hinum meðferðunum sem koma svo í kjölfarið.
Fylliefni geta virkað mjög vel gegn innföllnum örum. Árangurinn kemur þá yfirleitt strax í ljós og batatíminn nær enginn. Sumir sjúklingar þurfa nokkur meðferðarskipti til að ná góðum árangri, eða 2-4 meðferðir, en margir þurfa bara eina meðferð. Þegar við notum fylliefnin sem meðferð við örum þá gerum við yfirleitt „subcision“ um leið eða losum um örvefinn undir húðinni. Fylliefnin virkja svo nýmyndun kollagens og einnig virkjast viðgerðarferli húðarinnar við „skaðann“ sem myndast í húðinni við bæði nálarstunguna og losun örvefjarins. Stundum þarf að endurtaka meðferðina eftir 1-2 ár.
Örnálarmeðferð eða Dermapen getur virkað gegn vægum nýlegum örum. Dermapen örvar nýmyndun kollagens eins og djúpi picolaserinn en okkar reynsla er að picolaserinn er mun áhrifaríkari og notum við því hann frekar en Dermapen sem örameðferð.
Ég myndi ráðleggja þér að leita til húðlæknis til að fá ráðgjöf hvaða meðferð hentar þér best og setja upp meðferðarplan. Gangi þér vel!
Kær kveðja,
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR.