Rebekka Ashley Egilsdóttir vöruhönnuður nýtti taupoka úr versluninni Geysi á skemmtilegan hátt þegar hún hannaði jakka úr nokkrum pokum frá versluninni. Jakkinn er eins og flottasta tískuvara en Rebekka segir að það mætti endurhugsa notkun taupoka.
Síðastliðið sumar vann Rebekka verkefnið Flokk till you drop sem snerist um að endurvinna föt úr alls konar efnum úr Rauða krossinum. Það má segja að jakkinn sem hún hannaði hafi verið gerður í beinu framhaldi enda er gildi og verðmæti hluta henni afar hugleikið.
„Ég var að taka til í skápnum mínum og fattaði að ég átti alveg átta geysispoka og nota alltaf sama pokann,“ segir Rebekka sem talaði við vini sína sem höfðu alveg sömu sögu að segja. „Mig langaði til að nýta þetta efni af því að taupokarnir eru komnir í staðinn fyrir plastið sem er alveg æði en í kjölfarið safnar maður þessu að sér og veit ekki alveg hvað maður á að gera við þetta allt. Mig langaði að búa til einhverja heild úr þessu, eitthvað einstakt, skemmtilegt og öðruvísi sem væri hægt að nota í staðinn fyrir að geyma ofan í skúffu.“
Jakki varð fyrir valinu af því Rebekka vildi búa til eitt stórt stykki. Um átta pokar fóru í jakkann og gat Rebekka nýtt alla pokana sem hún átti. Jakkann ætlar Rebekka að nota enda vill hún að efnið sé nýtt. Jakkinn var þó ákveðin listræn tilraun líka. Rebekka segist ekki hafa spurt Geysi um leyfi áður en hún hófst handa enda bara um listaverk að ræða. Þegar hún birti myndir af jakkanum á samfélagsmiðlum hafði starfsfólk Geysis samband og hrósaði henni fyrir jakkann.
Rebekka segir fólk að vissu leyti hugsa taupoka eins og plastpoka. „Ég held við séum enn svolítið föst í því að fá taupoka og koma fram við hann eins og hann sé plastpoki. Taka hann með okkur heim og svo bara fer hann í skúffuna og við notum hann aldrei aftur. Það væri hægt að endurhugsa gildi taupokans. Hvort sem við notum alltaf sama pokann og afþökkum poka eða tökum hann með okkur heim og nýtum efnið í eitthvað annað.“
Rebekka útskrifaðist sem vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands í sumar. Hún segir að það sé skrítið að vera nýútskrifuð í heimsfaraldri.
„Planið var alltaf að fara beint í starfsnám eftir útskrift. Það er bara ekki hægt þar sem það er enginn að taka við starfsnemum, hvergi í heiminum. Ég þurfti svolítið að endurhugsa og verða sveigjanleg. Eins og er leigi ég stúdíó með nokkrum stelpum og er að vinna sjálfstætt að því sem mér finnst skemmtilegast að gera og reyna að fleyta mér áfram þannig.“