Listakonan Íris Hrefna Hafsteinsdóttir ætlar að fá sér húðflúr á allan líkamann fyrir utan andlitið. Draumur Írisar Hrefnu rættist nýlega þegar hún hóf störf á húðflúrstofunni Black Kross Tattoo. Húðflúr Írisar Hrefnu eru órjúfanlegur hluti af henni og með þeim tengist hún fjölskyldu sinni á áhrifaríkan hátt.
„Ég hef alltaf haft áhuga á húðflúrum, pabbi var sjómaður og var með mörg „old school“ sjóaratattú sem mér fannst alltaf svo flott. Ég hef alltaf teiknað mikið og var krakkinn sem fór á milli húsa að selja teiknimyndasögur eftir mig sjálfa. Þegar ég var lítil dreymdi mig um að vinna við að gera teiknimyndir eða verða húðflúrari. Ég er mjög þakklát að draumurinn hafi orðið að veruleika,“ segir Íris Hrefna um áhuga sinn á húðflúrum.
Íris Hrefna er 24 ára og fékk sér sitt fyrsta húðflúr þegar hún varð tvítug. Hún er fegin að hafa beðið með að fá sér húðflúr þar sem hún segir hugmyndir sem hún fékk á unglingsárum hafa verið misjafnar.
„Fyrsta flúrið mitt var minningartattú sem ég er með á innanverðum framhandleggnum. Þetta eru nöfnin á fjórum systkinum mínum, þrjú þeirra fórust í snjóflóðinu á Súðavík 1995, ári áður en ég fæddist. Fjórða nafnið er svo nafn eldri systur minnar sem lést af völdum krabbameins árið 2006. Mér þykir mjög vænt um þetta húðflúr,“ segir Íris Hrefna. „Annað tattú sem mér þykir mjög vænt um er „old school“ hjarta með borða. Inni í borðanum stendur mamma en mamma mín er mín helsta fyrirmynd og þess vegna elska ég þetta flúr. En annars eru augun í lófunum líka í uppáhaldi.“
Íris Hrefna segist ekki hafa fundið fyrir fordómum vegna fjölda húðflúra sem hún er með. Fólk hefur þó skoðanir á húðflúrunum en Íris Hrefna kippir sér lítið upp við það.
„Eina sem hefur farið í taugarnar á mér er þegar ég hef fengið leiðinlegar athugasemdir á stefnumótum og strax farið að stjórnast í mér að fá mér ekki tattú hér eða þar. Mér finnst mjög gaman að fara í sund og finnst það bara fyndið ef fólk horfir á mig. Ég hef þó oft lent í því að fólk haldi að ég sé útlendingur og heyrði einu sinni stelpur tala sín á milli um hversu ljót tattúin mín væru því þær héldu að ég talaði ekki íslensku, auðvitað hló ég bara og brosti til þeirra.“
Hvaða húðflúr eru næsta á dagskrá?
„Ég verð að viðurkenna að ég plana voða lítið hvað ég fæ mér næst, ég fæ hugmynd einn dag og stekk beint á það. Orðið hvatvís hefur oft verið notað til að lýsa mér, ég sé það ekki sem neikvætt því ég hef verið að kljást við ofsakvíða allt mitt líf og var týpan sem ofhugsaði allt og þorði ekki að gera neitt. Lífið er ekki sjálfsagður hlutur, maður veit aldrei hvað getur gerst og því vil ég ekki sjá eftir neinu. Ég geri því það sem ég vil og pæli ekkert í hvað öðru fólki finnst. Ég tengi mikið við aukið sjálfstraust með hverju og einu flúri, líður eins og ég hef alltaf átt að vera svona. Planið er samt að fylla allan líkamann nema andlitið því ég var víst búin að lofa mömmu því,“ segir Íris Hrefna og hlær.
„Ég er samt mjög spennt að klára lita flúrið á bakinu mínu þó það sé versti sársauki sem ég hef upplifað en ég verð víst að láta mig hafa það. Ég mun örugglega fá nóg einn daginn ef ég er búin með plássið. Ég elska flúrið mitt og sé ekki eftir neinum og held að ég muni líklegast aldrei gera það, mörg af þeim eru tengdar minningum og köflum í lífi mínu.“
Draumur Írisar Hrefnu rættist nýlega þegar hún hóf störf sem húðflúrari hjá húðflúrstofunni Black Kross. Eigendur stofunnar þau Jason Thompson og Ásthildur Björt sáu málverk og teikningar eftir Írisi Hrefnu á Instagram og buðu henni í kjölfarið stöðu lærlings á stofunni. „Ég er mjög þakklát þeim að hafa gefið mér tækifæri. Ég þurfti samt að sanna mig og fylla margar möppur af teikningum. Ég mætti nánast á hverjum degi með nýja útfyllta teiknimöppu þangað til að ég fékk staðfestingu að ég fengi pláss á stofunni.“
Íris Hrefna segist elska að gera litrík og skrítin hugflúr, því skrítnari því skemmtilegra segir hún.
„Skrítnasta tattú sem ég hef gert er líklegast fljúgandi blátt svín í g-streng og hælaskóm. Annars finnst mér alltaf skemmtilegt að gera dýr og blóm. Bestu kúnnarnir eru þeir sem treysta mér fyrir verkinu og gefa mér frelsi í hönnun og litavali. Skemmtilegast við starfið er fólkið sem vinnur á stofunni og kúnnarnir, ég elska að spjalla og kynnast nýju fólki. Það eru mikil forréttindi að fá loksins að vinna draumastarfið, umkringd æðislegu fólki alla daga að skapa list. Lífið getur varla orðið betra.“