Forsetafrú Bandaríkjanna, dr. Jill Biden, klæddist netsokkabuxum þegar hún og eiginmaður hennar, Joe Biden, lentu á Andrews Air Force-flugvellinum í Maryland í síðustu viku. Netsokkabuxurnar hafa vakið þó nokkra athygli og margir leitað sér að eins sokkabuxum á netinu.
Við sokkabuxurnar klæddist frú Biden svörtum kjól með pleðurstroffi og svörtum jakka með gylltum hnöppum. Hún var í svörtum ökklaháum stígvélum við.
Umræða skapaðist á samfélagsmiðlinum Twitter um sokkabuxur Biden og þótti mörgum ansi djarft af henni að ögra hugmyndinni um hina settlegu og fullkomnu forsetafrú á þennan hátt. Viðbrögðin voru þó að mestu jákvæð og skrifaði til dæmis einn að Biden mætti klæðast hverju því sem hana langaði til að klæðast.
„Réttu upp hönd ef þér finnst forsetafrúin hafa rokkað þessar sokkabuxur,“ skrifaði annar.