Fyrir hvað standa jakkaföt karlmanna?

Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla.
Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla. Ljósmynd/Saga Sig

„Það eru tveir atburðir í sögunni sem urðu þess valdandi að hinn vestræni tískuiðnaður varð til í þeirri mynd sem við þekkjum hann í dag. Það var franska byltingin annars vegar og svo iðnbyltingin hins vegar,“ segir Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla í sínum nýjasta pistli: 

Vestrænt samfélag hefur staðsett tísku í andstöðu við ráðandi karlmannleg gildi. Eftir frönsku byltinguna, þegar nýjar hugmyndir um lýðræðisleg gildi voru til umræðu, þá varð niðurstaðan sú að menn ættu ekki ekki sýna vald sitt með fatnaði eins og karlmenn í elítunni höfðu gert áður, með skrautlegum og dýrum efnum og fatnaði úr flaueli, blúndum og gulli. Að þess þyrfti ekki vegna þess að valdið og karlmennskan sæti í manninum, í líkamanum og ekki þyrfti áberandi og dýr föt til þess að gera öðrum það ljóst. Þetta var algerlega ný hugmynd og í samræmi við hinar nýju lýðræðislegu hugmyndir þessa tíma.

Tískan sem var áður ráðandi, tíska elítunnar sem þá var búið að steypa, hafði verið skapandi, litrík og nýjungagjörn. Þar var markmiðið að framleiðendur næðu í hverri flík að sýna snilli sína í vefnaði, hönnun og framsækni auk þess að sýna auð viðskiptavinarins.

Þetta allt, hin framsækna og skrautlega tíska, var skilið eftir hjá konunum sem eftir byltinguna fengu engin völd og voru ekki þátttakendur þegar hið fræga slagorð, „frelsi, réttlæti og bræðralag“, var samið. Konur voru ekki hlutaðeigandi að þessari nýju hugmyndafræði lýðræðisins.

Þarna verður til hugmyndin að þeim jakkafötum sem hafa í töluverðan tíma verið nánast einkennisbúningur hins vinnandi borgaralega karlmanns sem þarf ekki að sýna vald sitt með fatnaði vegna þess að valdið býr innan í honum.

Fyrir frönsku byltinguna máttu textílframleiðendur einungis framleiða falleg og framsækin efni fyrir aðalinn. Þá voru stífar reglur varðandi framleiðslu textíls.

Það mátti ekki blanda saman tveimur ólíkum efnum eins og bómull og hör vegna þess að það stendur í Biblíunni að það megi ekki. Og það mátti ekki framleiða sama efnið í meira en einn alklæðnað. Eftir byltinguna, þegar elítan var ekki lengur viðskiptavinur vegna þess að hún var mest höfðinu styttri, þá var farið að taka þetta þunga regluverk í burtu til þess að textíliðnaðurinn gæti þróast áfram.

Það var búið að ákveða að karlmenn ætluðu ekki að klæða sig í skrautklæðnað, slíkt væri of líkt klæðaburði elítunnar fyrrverandi. Nú, þá stóðu eftir konurnar sem viðskiptavinir framtíðarinnar í tísku.

Með iðnbyltingunni þróaðist borgin og innan hennar samfélag neyslu þar sem lúxusvarningur og tíska varð í fyrsta skipti aðgengileg borgarastéttinni. Það er þarna sem almenningsrýmið verður til ásamt rými til neyslu, þar sem fólk sýndi sig og sá aðra. Kaffihús og stórverslanir urðu staðir þar sem fólk kom saman og kom skilaboðum á framfæri með útliti sínu og framkomu. Borgarsamfélagið þróaðist og breyttist og menningarsagan tók nú að snúast um einstaklinginn og neyslu hans.

Konur í millistétt á þessum tíma voru auðvitað almennt ekki á vinnumarkaði og klæðnaður þeirra átti fyrst og fremst að miðla stöðu og auði manna þeirra. Þær þurftu ekki að fara eftir reglum karlmannanna og gátu verið alls konar vegna þess að þær höfðu engin völd. Það hafa auðvitað orðið einhverjar breytingar á stöðu kvenna en jakkafötin standa enn óhögguð sem andstaða framsækni, sköpunar og nýjunga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda