Það leikur enginn vafi á því að Katrín hertogaynja reynir að tengja fatastílinn sinn við konungsríkið. Það kom berlega í ljós í vikunni þegar hún og hertoginn af Cambridge heimsóttu Skotland.
Katrín hertogaynja klæddist köflóttum rykfrakka frá breska tískuhúsinu Holland Cooper. Svona rykfrakki er falur á veraldarvefnum fyrir 145 þúsund krónur.
Sem virðingarvottur við afa Vilhjálms, prins Filippusar, sem lést í apríl þá 99 ára, óku hertoginn og hertogaynjan af Cambridge um á gömlum Land Rover sem var í eigu Filippusar heitins. Katrín kórónar svo lúkkið sitt með grænum Manolo Blahnik-hælum í stíl við litinn á Land Rovernum.
Það var létt yfir þeim, Kata var með hárið í lausu tagli og Villi slakur án bindis. Þau nutu sín vel án grímu og gaman að sjá aftur brosið þeirra. Hertogaynjan af Cambridge var með eyrnalokka sem eru í eigu ömmu gömlu.
Hjónin fóru meðal annars á seglhjól á strönd nálægt Sankti Andrews-háskólanum, þar sem þau kynntust fyrst fyrir 20 árum. Eftir seglhjólaævintýrið fengu þau sér fisk og franskar á vinsælum skyndibitastað við ströndina sem þau heimsóttu oft sem háskólanemar.