„Við sáum nýlega myndir af nýjum flugfreyjubúningum hins nýja flugfélags Play. Þar var farin ný og nútímaleg leið. Búningarnir eru þægilegir, sportlegir og nokkuð svipaðir fyrir bæði kynin. Þarna, með þessum nýjum búningum var einfaldlega skilin eftir gömul hugmynd um hvernig konur eiga að vera. Engir hælar, engar nælonsokkabuxur ekkert naglalakk. Hin gamaldags þjónandi flugfreyja í þröngu fötunum og þunga farðann sem var skilduð til þess að vera með nagalakk, heyrir nú sögunni til. Önnur flugfélög munu fylgja eftir,“ segir Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla í sínum nýjasta pistli:
„Þessi nýju búningar standa fyrir og gera okkur kleyft að innleiða nýjar hugmyndir, ný gildi og auka jafnrétti kynjanna. Hið gamla víkur fyrir hinu nýja.
Ef að við lítum á söguna, þegar hugmyndir í samfélaginu hafa breyst mjög snögglega, eins og til dæmis í byltingum, þá hefur fatnaður almennings breyst mjög fljótt algerlega án þess að einhver önnur ástæða væri fyrir því en sú að hugmyndir og gildi breyttust. Hið nýja samfélag varð að líta öðruvísi út en það gamla. Annars gat breytingin ekki gengið í gegn.
Þegar stóru tæknirisarnir urðu til, Microsoft, Apple, Google, Facebook og fleiri þá varð til í Bandaríkjunum nýtt vinnuafl, svokallað „nocollar“ (sbr. „white collar“, „blue collar“) vinnuafl. Þetta fólk vildi að það kæmi skírt fram að þeir voru ekki „Wall street“, að þeir voru ekki peningaöflin. Þeir voru tæknifólk og þeir bjuggu ekki bara til tæknifyrirtækin og gífurlegan auð, heldur var á þessum tíma búið til nýtt útlit á fólkið og vinnustaðina sem þau unnu á. Engir menn í jakkafötum með bindi hefðu getað búið til þessu nýju fyrirtæki. Hið nýja skilur hið gamla eftir, með fatnaði.
David Bowie notaði þessa hugmynd, að vera einhver annar en hann sjálfur, að skilja sig eftir, markvisst til þess að búa til eitthvað nýtt, búa til hið óvænta. Til þess notaði hann fatnað, farða og annað. Með þessum hætti fann hann frelsi til þess að gera hluti sem hann gat ekki gert sem David Bowie.
Brian Eno, samstarfsmaður Bowie og snillingur, notaði oft hlutverkaleik í störfum sínum sem framleiðandi tónlistar, eftir að hann sá aldraða tengdafjölskyldu segja og gera eitthvað óvænt og stórkostlegt þegar fjölskyldan spilaði spil um einhver jól þar sem fólki var úthlutað hlutverk önnur en þess eigin. Það sem fólkið sagði og gerði hefði það aldrei sagt og gert sem það sjálft, það gat bara gert það sem einhver annar.
Eno lét meðlimi hljómsveita fá hlutverk, ólík þeim sem þeir voru í sjálfir og lét þá einnig stundum fá allt önnur hljóðfæri en þeir kunnu á, með það a markmiði að láta hið óvænta gerast. Með það að markmiði að búa til eitthvað raunverulega nýtt.
Vatíkanið, páfinn og co, hafa ansi lengi verið í sömu búningunum. Það hafa augljóslega engar nýjar hugmyndir verið innleiddar í það samfélag lengi og hefur sama fyrirtækið, Gamarelli, staðsett í Róm búið til þessa búninga samfleytt frá árinu 1798. Eftir stríð voru uppi einhverjar hugmyndir innan Kaþólsku kirkjunnar að gera einhverjar breytingar á messuforminu til þess að ná betur til fólksins og þá var ákveðið að hætta að messa á latínu og messa í staðinn á tungumálum hvers lands sem var mjög góð hugmynd. Í framhaldinu varð smávægileg breyting á búningi páfa. Hann hætti að bera þrefalalda gullkórónu í messum og ber núna einungis „zucchetto“ eða „mitre“ sem höfuðfat. En aðrar breytingar hafa ekki orðið.
Niðurstaðan þessarar upptalningar hlýtur því að vera eftirfarandi: Hverskonar reglur um klæðaburð koma í veg fyrir framþróun hugmynda? Við skiljum eftir gamlar hugmyndir með því að fara í ný föt og búum til nýjar hugmyndir með því að vera framsækin í klæðaburði!
Búum til betri heim! Áfram tíska!“