Fatahönnuðurinn María Björg Sigurðardóttir er konan á bak við tískuvörumerkið MaiaMaia. María sendi nýverið frá sér nýja línu sem samsett er úr fallegum og klæðilegum flíkum. María hefur síðastliðin ár unnið mest að búningagerð og fatahönnun og starfaði um tíma sem innkaupastjóri í London. Hún stofnaði hönnunarverslunina Kiosk ásamt fleiri íslenskum hönnuðum en þar er fatalína hennar einnig til sölu.
MaiaMaia stofnaði hún árið 2017 í eins konar framhjáhlaupi á meðan hún var að fást við önnur verkefni. Sú lína seldist gríðarvel og fór hún fljótlega að leggja drög að nýrri línu. „En eins og fleiri lentu í tafðist framleiðslan og í raun allt ferlið vegna kórónuveirunnar. Mér fannst vanta þessa tegund fatnaðar hér á Íslandi, eins konar elegant, afslöppuð föt sem hægt er að vera í heima eða úti á meðal fólks, á ensku er þetta kallað „loungewear“,“ segir María.
Áður en María hóf að hanna undir merkjum MaiaMaia hafði hún hannað línu sem hét Klukka og var seld í Kiosk fyrir meira en áratug síðan.
Í hönnun sinni leggur María fyrst og fremst áherslu á þarfir kvenna. Að flíkurnar séu praktískar, þarfnist ekki mikils viðhalds, séu klæðilegar og endingargóðar. „Ég vil að flíkurnar séu klassískar og standist tímans tönn,“ segir María.
Fötin sem María hannar er hægt að klæða upp og niður, það er að segja, hægt er að hanga í þeim heima, fara í þeim í vinnuna og poppa þau upp með skartgripum og hælum til að fara út á lífið.
„Eitthvað fallegt til að klæðast um leið og maður fer á fætur, en samt verið sætur og fínn. En svo þarf ekkert annað en að bregða á sig varalit og fallegum skóm og maður er tilbúin að taka á móti gestum eða fara út á lífið. Ég legg áherslu á vönduð efni og þægindi. Nútímakonan á annasaman lífsstíl og leggur mikið upp úr frítíma sínum, það er ekki lengur eitthvað til að skammast sín fyrir að hvíla sig og njóta frítímans heima í afslöppuðu umhverfi,“ segir María.
Heimsfaraldurinn hefur gert það að verkum að fólk ver meiri tíma heima hjá sér. Um tíma þurftu margir einnig að vinna heima og því hefur fatnaður sem er þægilegur komist í tísku.
„Það mætti segja að „loungewear“ hafi orðið algengara konsept af því að fólk ver meiri tíma heima hjá sér, breytti sínum lífsstíl og ég held að mikið af því sé komið til að vera. Af hverju ætti maður ekki að viðhafa sama standard fyrir sig þótt maður sé jafnvel einn heima. Klæðnaður er tjáningarform, við klæðum okkur fyrir okkur sjálf og okkar eigin vellíðan,“ segir María.
María leggur áherslu á að flíkin geri eins mikið fyrir líkamann og hægt er, að hún dragi fram það besta og því eru form og snið henni hugleikin. Nýju línuna hugsaði hún ekki bara sem sumarlínu eða vetrarlínu, heldur eru mismunandi mynstur sem henta hverri árstíð. Mynstrin eru öll í dökkum, ljósum og skærum litum og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í línunni.