Bandaríska söngkonan Kehlani vakti mikla athygli í grænum bol og buxum frá íslenska hönnuðinum Hildi Yeoman í opnunarteiti tískuvikunnar í London. Hildur segir í samtali við Smartland vera ánægð með hvernig hefur gengið undanfarið en fullt af flottu fólki hafa klæðst hönnun hennar.
Hildur er með umboðsskrifstofu í London og þar fá stílistar og listamenn lánuð föt fyrir ýmis tækifæri. Að Kehlani hafi klæðst fötunum er nýjasta dæmið um hversu vel gengur. Sérstaklega var fjallað um klæðnað hennar á vef Daily Mail.
Kehlani var í góðum félagsskap í veislunni en hún stillti sér meðal annars upp í fötum Hildar með ofurfyrirsætunni Naomi Campbell og Edward Enninful ritstjóra breska Vogue.
„Þetta er búið að vera stigvaxandi í svolítinn tíma,“ segir Hildur um vinsældirnar og bætir við að mikið sé um erlendar pantanir í netversluninni á Hildur Yeoman.com. „Þetta er bara eins snjóbolti. Þetta snýst oft um stílistann. Hann er kannski með allskonar önnur skemmtileg verkefni, svo rúllar þetta áfram. Það var til dæmis ein söngkona í prjónasettinu um daginn og þá voru ótrúlega margar sem báðu um það sem ég get ekki sagt frá núna.“
Hildur segir allt hannað í stúdíóinu á Laugavegi 7 fyrir neðan búðina. „Við vorum að fá nýja línu núna. Það er fullt af nýjum fallegum haustvörum, fullt af hlýjum peysum og prjónasettum og allskonar fallegum kjólum eins og alltaf.“ Fötin sem Kehlani klæddist er hins vegar hluti af línunni SPLASH! sem kom í sumar og gekk mjög vel.