Fyrirsætan Linda Evangelista segist hafa hlotið varanlegar skemmdir eftir að hafa gengist undir fitufrystingu.
Hún segist hafa fengið svokallað paradoxical adipose hyperplasia (PAH). Það hafi eyðilagt lífsviðurværi hennar og leitt hana í alvarlegt þunglyndi. Hún hefur nú höfðað skaðabótamál.
PAH er lýst sem sjaldgæfum en slæmum aukaverkunum af fitufrystingu (cryolipolysis) þegar fituvefurinn bregst við kuldanum með því að vaxa frekar en skreppa saman.
Evangelista, sem er 56 ára, tjáði sig um málið á Instagram:
„Í dag tók ég stórt skref í því að leita leiða til þess að rétta minn hlut en ég er búin að þjást og halda þessu fyrir mig í meira en fimm ár. Margir fylgjenda minna hafa velt því fyrir sér af hverju ég sé ekki að vinna á meðan ferill jafnaldra minna virðist blómstra.
Ástæðan er að ég varð hræðilega afmynduð eftir Zeltiq CoolSculpting sem gerði það gagnstæða við það sem var lofað. Það bætti í fitufrumur mínar en dró ekki úr þeim og skildi mig eftir afmyndaða til frambúðar, jafnvel eftir að hafa farið í tvær sársaukafullar og misheppnaðar aðgerðir til þess að laga mig. Eins og fjölmiðlar hafa lýst, þá er ég óþekkjanleg.
Enginn gerði mér grein fyrir áhættunni sem gæti falist í aðgerðinni. PAH hefur orðið til þess að ég hef misst lífsviðurværi mitt og ég er orðin afar þunglynd, finn fyrir mikilli sorg og sjálfshatri. Í þessu ferli hef ég orðið einræn.“
CoolSculpting er vörumerki fyrir cryolipolysis, sem er vinsæl fitufrystingaraðferð. Aðgerðin á að frysta fitufrumur og drepa þær. Þær skolast síðan út úr líkamanum í gegnum lifrina. Sagt er að minna en eitt prósent einstaklinga fái PAH í kjölfarið.